Erlent

Brown bíður

Gordon Brown ræddi við fréttamenn fyrir utan Downingstræti 10 í dag.
Gordon Brown ræddi við fréttamenn fyrir utan Downingstræti 10 í dag. Mynd/AP
Leiðtogar Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata í Bretlandi hafa ákveðið að hefja viðræður um stjórnarsamstarf. Gordon Brown, forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, er þó ekki af baki dottinn.

Íhaldsflokkurinn er sigurvegari í kosningunum í Bretlandi. En ókrýndur þó því flokkurinn náði ekki hreinum meirihluta. Sigur flokksins liggur í því að samkvæmt fyrirliggjandi tölum bætti hann við sig 97 þingsætum. Verkamannaflokkurinn tapaði hinsvegar 91 þingsæti og Frjálslyndir demókratar fimm.

Tap Verkamannaflokksins kemur ekki á óvart. Það gerir hinsvegar tap demókrata sem búist var við að sæktu mjög í sig veðrið. Það má því segja að stærsti ósigurinn hafi fallið þeim í skaut. Bæði íhaldsmenn og liðsmenn Verkamannaflokksins hafa gert hosur sínar grænar fyrir Nick Clegg, leiðtoga flokksins, en hann hefur valið að reyna fyrst fyrir sér hjá David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins.

Gordon Brown segist skilja það fullkomlega en: „Ég vil taka fram að ég er reiðubúinn að hitta hvorn flokksleiðtogann sem er. Ef ekkert kemur út úr viðræðum Camerons og Cleggs verð ég auðvitað tilbúinn að ræða við herra Clegg um þau atriði sem flokkar okkar eru sammála um."

Hvernig sem viðræðurnar fara verður Gordon Brown forsætisráðherra vel nokkra næstu daga. Hann segir ekki af sér fyrr en búið er að ákveða að mynda ríkisstjórn án Verkamannaflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×