Lífið

Eldheit ástarsambönd í nýjum þætti Rikku

Tinni Sveinsson skrifar
Matarást Rikku er á dagskrá á fimmtudagskvöldum í maí og júní.
Matarást Rikku er á dagskrá á fimmtudagskvöldum í maí og júní.
Matgæðingurinn Friðrika Geirsdóttir fór af stað með nýjan þátt á Stöð 2 í gær. Í þættinum fer hún í heimsókn til þekktra Íslendinga, sem eiga það sameiginlegt að eiga í misjafnlega löngu en í öllum tilfellum alveg eldheitu ástarsambandi við matargerð.

Fyrsti þátturinn var sýndur í gær og heimsótti Rikka þar Jóhannes Hauk Jóhannesson leikara, sem hefur slegið rækilega í gegn í Hellisbúanum í vetur. „Það var einstaklega gaman að heimsækja Jóa og fjölskyldu hans. Þau eiga hlýlegt heimili í Hlíðunum og Jói fór á kostum í tökunum og þess á milli," segir Rikka.

Á næstu vikum heimsækir hún einnig Nönnu Rögnvaldardóttur matreiðslugúru, Heru Björk Eurovision-fara og Steingrím Sigurgeirsson veitingahúsarýni. Þau munu halda matarboð og Rikka fylgist með undirbúningnum, ræðir um ástarsamband kokkanna við matreiðsluna og allt sem viðkemur mat og matarmenningu.

Matarást er á dagskrá um áttaleytið á Stöð 2 á fimmtudögum.

Hér er hægt að sjá uppskriftirnar sem Jóhannes Haukur fór eftir en hann gerði safaríka nautasteik og hollari útgáfuna að súkkulaðiköku sem Rikka segir munu sitja fasta í „bragðminninu" sínu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.