Innlent

Ekki þorandi að senda vísindamenn í hlíðar jökulsins

Ekki er þorandi að senda vísindamenn upp í hlíðar Eyjafjallajökuls til að kanna hættuna á frekari eðjuflóðum á svæðinu. Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna Ríkislögreglustjóra, segist ekki telja að grípa þurfi til rýminga á svæðinu.

Stórt öskuflóð flæddi niður árfarveg Svaðbælisár í gær. Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, sagði að litlu hefði mátt muna að varnargarðar hefðu brostið við flóðið.

Íbúafundur verður haldinn í íþróttahúsinu á Hvolsvelli, klukkan hálf níu í kvöld þar sem farið verður yfir þróun eldgossins í Eyjafjallajökli og stöðuna í dag. Fundarstjóri verður Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Hann segir að haldi áfram að rigna á svæðinu geti skapast aðstæður fyrir annað eðjuflóð. Vel sé fylgst með jöklinum en að mati Almannavarna er ekki talið forsvaranlegt að senda vísindamenn upp á jökulinn til þess að kanna aðstæður.

Að sögn Víðis er bráð hætta ekki talin steðja að bæjum á svæðinu heldur talið að eðjuflóð muni halda sig við árfarvegina. Auk þess fara eðjuflóð mjög hægt yfir og því er talið að nægur tími sé til að bregðast við þegar flóð hefst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×