Lífið

Listamiðstöð barónessu við Sætún í uppnámi

Barónessan Francesca von Habsburg seldi verk á uppboði í London fyrir hundrað milljónir sem áttu að nýtast í þetta verkefni en þeir peningar hafa aldrei sést.
Barónessan Francesca von Habsburg seldi verk á uppboði í London fyrir hundrað milljónir sem áttu að nýtast í þetta verkefni en þeir peningar hafa aldrei sést.

Tímaritið Art Newspaper greinir frá því að barónessan Francesca von Habsburg ætli að draga úr umsvifum sínum í íslensku listalífi. Listamiðstöð í Kaaber-húsinu er meðal þess sem sett verður í salt.

Art Newspaper slær því upp í grein eftir blaðamanninn Clemens Bomsdorf að barónessan Francesca von Habsburg ætli að draga úr starfi sínu á Íslandi eftir að hafa verið áberandi í íslensku listalífi. Francesca hefur stutt fjölda íslenskra listamanna undanfarin ár og lagt þeim lið en meðal þess sem barónessan hyggst setja í salt er fyrirhuguð listamiðstöð í gamla Kaaber-húsinu við Sætún. Hún átti að hýsa Nýlistasafnið, dánarbú Dieter Roth og stóran hluta af umfangsmiklu listaverkasafni barónessunnar.

Birta Guðjónsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, segir þetta vera „ekki-frétt" hjá Art Newspaper. „Þessi listamiðstöð náði aldrei lengra en að vera hugmynd sem var kastað fram. Menn fóru ef til vill aðeins fram úr sér í umræðu og umfjöllun um þetta mál," segir Birta.

Barónessan sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir rúmu ári að listamiðstöðin væri nauðsynleg í ljósi bankahrunsins. Von Habsburg seldi síðan þrjátíu listaverk í sinni eigu fyrir meira en hundrað milljónir króna á uppboði í London og sagði í umræddu viðtali að þann pening ætti að nota til að leggja þessu verkefni lið.







Listamiðstöðin átti að rísa í Kaaber-húsinu við Sætún.

„Ég veit að sem stendur hefur enginn á Íslandi fé til að setja í stofnun sem þessa, og þess vegna ákvað ég að selja þessi verk úr safninu mínu, safna fé og setja verkefnið á flot. Þetta verður að gerast NÚNA, í þessum aðstæðum, á þessum tíma," sagði Habsburg við Morgunblaðið.

Birta segir engin samskipti hafa átt sér stað við barónessuna frá þessum tíma. Og þau hafi ekkert séð af þessum peningum sem barónessan lýsti yfir að skyldi varið til safnsins og uppbyggingu þess. „Og við áttum aldrei von á því að þessir peningar myndu skila sér beint til Nýlistasafnsins. Ég veit ekkert hvað gerist í framtíðinni. Þetta er hreinlega eitthvað sem við höfum ekkert pælt í undanfarið ár."

freyrgigja@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.