Innlent

Metfjöldi af hassplöntum hirtur á síðasta ári

Lögreglu var tilkynnt um 74.767 brot á síðasta ári
Lögreglu var tilkynnt um 74.767 brot á síðasta ári
Hegningarlagabrotum fjölgaði um tíu prósent á síðasta ári en auðgunarbrot, innbrot og þjófnaðir, höfðu þar mestu áhrifin en þeim fjölgaði um 19% milli ára. Sérrefsilagabrot voru 19% færri og fjöldi umferðarlagabrota hélst svipaður.

Þetta kemur fram í tölfræðiskýrslu ríkislögreglustjóra sem birtir staðfestar tölur um afbrot fyrir árið 2009.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að á árinu 2009 voru tilkynnt 74.767 brot til lögreglu og var heildarfjöldi brota nokkuð svipaður og árið þar á undan. Þrátt fyrir það fjölgaði hegningarlagabrotum um 10%.

Lagt var hald á tæp 55 kíló af maríjúana á árinu 2009, 80 kíló af amfetamíni og yfir 10.000 e-töflur. Einnig var lagt hald á mikið af hassplöntum eða rúmlega 11.700 stykki. Aldrei hefur verið lagt hald á jafn mikið af plöntum.

Alls voru 4.614 einstaklingar kærðir fyrir 10.649 hegningarlagabrot. Meirihluti kærðra voru karlar rétt eins og fyrri ár auk þess sem hlutfallslega fleiri karlar en konur voru kærðir fyrir fleira en eitt brot. Konur voru 22% þeirra sem kærðir voru fyrir hegningarlagabrot. Þegar litið er nánar til brotaflokka má sjá að hæsta hlutfall kærðra kvenna var fyrir þjófnaðarbrot, eða 35%, en lægra í öðrum brotaflokkum. Til dæmis voru konur aðeins 14% kærðra í líkamsárásarmálum, 13% í innbrotum og 4% í kynferðisbrotum.

Meðalaldur kærðra í hegningarlagabrotum var 28 ár en 26 ár í fíkniefnabrotum,sem falla undir sérrefsilög, og 40 ár í umferðarlagabrotum.

Skýrsluna má lesa í heild sinni með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×