Lífið

Þjóðverjar springa úr stolti - fjórar borgir slást um Eurovision

Tinni Sveinsson skrifar
Þjóðverjar flögguðu fánanum sínum eins og brjálæðingar í fyrsta skipti í tugi ára eftir sigurinn í Eurovision.
Þjóðverjar flögguðu fánanum sínum eins og brjálæðingar í fyrsta skipti í tugi ára eftir sigurinn í Eurovision.
Berlín, Hannover, Köln og Hamborg vilja allar halda Eurovision á næsta ári. „Við ætlum að halda fullkomna keppni,“ segir Lutz Marmor hjá ARD, þýska ríkisútvarpinu. Þjóðverjar eru í skýjunum yfir sigri Lenu Meyer-Landrut. Víða um landið fór fólk út á götu og veifaði fánum, skaut upp flugeldum og þeytti bílflautur eftir sigurinn.

„Þýskaland, Evrópa elskar ykkur!“ stóð á forsíðu danska blaðsins BT í gær og það fór ekki framhjá Þjóðverjum. Þegar Lena mætti til Hannover í gær biðu hennar tugþúsundir manna. „Þið eruð klikk! Það er rigning, farið inn!“ sagði Lena í gjallarhorn sem hún tók af lögreglumanni. Ríkisstjórinn mætti með risablómvönd handa henni og Angela Merkel sendi sérstaka stuðkveðju.

Þjóðverjar hafa allt frá seinni heimsstyrjöld skammast sín fyrir þjóðernisrembing og hefur hann eiginlega verið bannaður. Nú leyfðu þeir sér aftur á móti að veifa fánunum og þótti flestum það frelsandi. Margir gæla einnig við þá tilhugsun að þetta sé góðs viti og landið vinni einnig HM í Suður-Afríku.

Þýska ríkisútvarpið, ARD, og EBU, sem heldur Eurovision, munu nú ákveða hvaða borg hentar best til þess að halda keppnina. Líklegt þykir að það verði Hamborg þar sem þýska undankeppnin er jafnan haldin.

Hin þýska Lena er á toppi vinsældalistans í Þýskalandi með sigurlagið Satellite og nýja platan hennar selst eins og heitar lummur. Þá eru margir byrjaðir að heimta það að hún keppi aftur að ári og verji titilinn. Þessa uppástungu kom sjálfur framkvæmdastjóri þýsku keppninnar með en ekki er víst að hún gangi eftir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.