Innlent

Þurfa að greiða erlenda lánið

Sambýlisfólki á Selfossi hefur verið gert að greiða að fullu erlent lán sem þau tóku árið 2007. Dómari við Héraðsdóm Suðurlands telur óumdeilt að lánið hafi verið í erlendri mynt og að lántakandi hafi getað fengið upphæðina í þeim myntum sem lánið var veitt í.

Íslandsbanki stefndi hjónunum til greiðslu lánsins eftir að þau hættu að greiða af því. Þau fengu andvirði 20 milljóna króna í japönskum jenum og svissneskum frönkum lánað til 25 ára hjá Glitni í september 2007. Lánið var greitt inn á reikning þeirra í íslenskum krónum og notuðu þau féð til að fjármagna húsbyggingu.

Lánið færðist til Íslandsbanka eftir bankahrunið. Bankinn gjaldfelldi lánið í nóvember 2008. Þá stóð höfuðstóllinn í tæpum fjörutíu milljónum og afborganir höfðu tvöfaldast.

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands segir að allir aðilar hafi fallist á að lánið væri lán í erlendri mynt. Ekki sé því hægt að halda því fram að þar hafi verið um að ræða um lán í íslenskum krónum sem bundið hafi verið gengi erlendra mynta, en Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að slíkt sé óheimilt.

Það þótti meðal annars styrkja þá niðurstöðu að fólkið fékk ekki nákvæmlega 20 milljónir útgreiddar. Upphæðin breyttist eftir að skrifað var undir samninginn vegna breytts gengis krónunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×