Skoðun

Hvað þýðir þögnin?

Á morgun fer fram fyrirtaka í dómsmáli ríkisins gegn nímenningunum sem eru ákærðir fyrir árás á Alþingi, 8. desember 2008.

Frá því að málið var þingfest fyrir hálfu ári og því fylgt eftir með hasarfréttamennsku og yfirlýsingagleði helstu fjölmiðla, hefur harðri gagnrýni á ákærurnar vaxið fiskur um hrygg. Gagnrýnin og opinberun sönnunargagna málsins hefur leitt af sér bitra þögn ritstjóra fjölmiðlanna.

Í maí sýndi Kastljósið myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavélum Alþingis, sem sýndi að undirstöður ákæranna eru á engum rökum reistar. Við gerð þáttarins neituðu Lára V. Júlíusdóttir, ríkissaksóknari, og Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, að tjá sig. Enginn hinna stóru fjölmiðlanna fjallaði um þáttinn fyrr en Stöð 2 sagði frá afskiptum Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, af ummælum Jóns Ólafssonar, heimspekings, um dómsmálið í útvarpinu. Ásta fullyrti ranglega um staðreyndir málsins og skammaði Jón fyrir hans skoðun. En svo vildi hún ekki tjá sig við Stöð 2. Afskiptasemin er undarleg fyrir þær sakir að þegar henni voru afhendar undirskriftir 700 manns, sem sögðust samsek nímenningunum vegna árása á Alþingi veturinn 2008-2009 og kröfðust þess að málið félli niður ellegar þau öll ákærð samkvæmt sömu lagagreinum, sagði hún að sér kæmi málið ekki við.

Enn hefur enginn tekið ábyrgð á beitingu 100. greinar hegningarlaga, sem mælir fyrir um eins árs til lífstíðar fangelsisvistar, síðan Helgi Bernódusson og Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, bentu á hvor annan í janúar. Enginn fjölmiðill hefur reynt að komast að hinu sanna.

Hvers vegna er þögnin eina svar þessara afla?

Má vera að þau einfaldlega hafi engin svör? Að sannleikur þessa máls sé nú þegar á yfirborðinu – málið sé einungis pólitískar ofsóknir í garð andófsfólks? Að nú, þegar sannleikur málsins liggur fyrir, færður uppá yfirborðið af nímenningunum og samherjum þeirra, sé eina nothæfa vopn ríkisins hinn refsandi armur þess, dómararnir?

Ef herkænska ríkisins er að þegja um málið og gagnrýni í garð þess, tekst prýðilega að sýna fram á eðlislægan en vel falinn fasisma ríkisins.

Verði þeim af því!

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson og Steinunn Gunnlaugsdóttir, listamenn og tvö hinna ákærðu




Skoðun

Sjá meira


×