Innlent

Ein plata á hvert mannsbarn

Um það bil ein íslensk plata var seld á hvert mannsbarn hér á landi á árinu 2009.
Um það bil ein íslensk plata var seld á hvert mannsbarn hér á landi á árinu 2009.
Nærri lætur að ein íslensk plata hafi verið seld á hvert mannsbarn hér á landi í fyrra, samkvæmt tölum frá Félagi hljómplötuframleiðanda. Er það litlu minna en árið áður og hljómplötusala virðist halda velli, þrátt fyrir árferðið.

Alls seldust 310 þúsund íslenskar hljómplötur 2009, en árið 2008 voru þær um 317 þúsund. Samdráttur milli ára nemur um 2 prósentum, hvað eintök varðar, en 5 prósentum í verðmæti. Einkaneysla hefur dregist saman í kjölfar bankahrunsins, um 7,8 prósent árið 2008 og 14,6 prósent í fyrra. Það virðist hins vegar ekki hafa haft áhrif á hljómplötukaup landans. Heildarsöluverðmæti íslenskra hljómplatna árið 2009 var um 407 milljónir, en var 428 milljónir árið áður.

Í tilkynningu frá Félagi hljómplötuframleiðenda segir Ásmundur Jónsson, formaður félagsins, að þetta séu mjög jákvæð tíðindi fyrir íslenskt tónlistarlíf og gefi vonandi fyrirheit um gott íslenskt tónlistarsumar. Það sé nú þegar hafið með útgáfu fjölda hljómplatna.

Ólíkt er á komið hvað varðar sölu á erlendum plötum, en hún hefur dregist verulega saman síðastliðin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×