Lífið

Munaðarlaus sýnt á ný tvisvar

Leikhópur og leikstjóri, Hannes, Stefán, Tinna og Vignir.
Leikhópur og leikstjóri, Hannes, Stefán, Tinna og Vignir.
Fáar leiksýningar hafa vakið meiri lukku á árinu en Munaðarlaus eftir Dennis Kelly í leikstjórn Vignis Rafns Valþórssonar. Hún var sýnd í janúar og febrúar fyrir fullu húsi í Norræna húsinu og í kjölfar þess var henni boðið að vera óvissusýning ársins hjá Leikfélagi Akureyrar. Nú er blásið til tveggja aukasýninga á verkinu í dag kl. 19 og kl. 22 og verður verkið sýnt í Norðurpólnum.

Munaðarlaus er verk sem rannsakar heim sem fæst okkar þekkja og viljum ekki vita af en er beint fyrir utan dyrnar okkar. Hversu langt erum við tilbúin að ganga til að vernda okkar nánustu? Hvernig getur samviskan haldist hrein þegar allir sveigja réttlætið að eigin þörfum?

Þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir Dennis Kelly er frumsýnt á Íslandi en verk hans hafa vakið mikla athygli. Verk hans hafa verið sýnd um gervalla Evrópu og Norður-Ameríku. Í sviðsetningu þeirra munaðarlausu eru það Hannes Óli Ágústsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Tinna Lind Gunnarsdóttir sem bera þungann af fjölskylduuppgjörinu. Miðasala er á Netinu og við inngang og má panta miða á munadarlaus@gmail.com. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.