Lífið

Yfirlitssýning Hafsteins Austmann

Hafsteinn Austmann fagnar sjötíu og fimm ára afmæli með stórri yfirlitssýningu í Gerðarsafni.
Hafsteinn Austmann fagnar sjötíu og fimm ára afmæli með stórri yfirlitssýningu í Gerðarsafni.

Í gær var opnuð sýning í Gerðarsafni á verkum frá löngum ferli Hafsteins Austmann en hann fagnar með sýningunni 75 ára afmæli. Á sýningunni má rekja feril Hafsteins allar götur frá því að hann sat kornungur við fótskör meistara franska skólans á sjötta áratug síðustu aldar.

Hafsteinn Austmann hefur fyrir löngu skapað sér nafn sem einn af vönduðustu listmálurum sinnar kynslóðar. Hann er fæddur á Vopnafirði 1934, en ólst að mestu upp í Reykjavík. Kornungur ákvað Hafsteinn að helga sig myndlistinni og eftir nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík og Handíða- og myndlistarskóla Íslands dvaldi hann í París 1954-55 og sótti þá tíma í Académie de la Grande Chaumière, meðal annars hjá myndhöggvaranum Zadkine. Námsdvöl hans í París á þeim árum þegar franski skólinn var mikilsvirtur í öllum hinum vestræna heimi setti mark sitt á feril hans.

Hafsteinn heillaðist snemma af franskri abstraktlist og var meðal annars boðið að sýna á hinni alþjóðlegu Réalités Nouvelles-sýningu, aðeins tvítugum að aldri. Heimkominn tók Hafsteinn þátt í öllum helstu sýningum íslenskra myndlistarmanna og skar sig ævinlega úr fyrir fágaðar abstraktmyndir sínar, bæði olíu- og vatnslitamyndir. Hann starfaði einnig við leikmyndagerð fyrir Leikfélag Reykjavíkur en hefur að mestu helgað líf sitt málverkinu, bæði olíu- og ekki síður vatnslitamyndum sem hann hefur sjaldgæf tök á, og svo höggmyndum.

Til þessa hefur hann haldið um 30 einkasýningar og tekið þátt í miklum fjölda samsýninga um allan heim. Sömuleiðis er verk Hafsteins að finna í öllum helstu listasöfnum Norðurlanda. Verk hans hafa enn fremur hlotið ýmsar viðurkenningar, meðal annars alþjóðlegu Windsor & Newton-verðlaunin fyrir vatnslitamyndir. Hafsteinn hefur einnig hlotið tvenn verðlaun fyrir útilistaverk og gert veggmynd fyrir Borgarspítalann.

Í tengslum við sýninguna verður gefin út vönduð bók „Kvika: Hafsteinn Austmann, Myndverk 1950-2010“, sem Aðalsteinn Ingólfsson hefur tekið saman. Sýningin er hluti af dagskrá Kópavogsdaga og mun standa til 20. júní.

pbb@frettabladid.is

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.