Erlent

BP greiðir kostnað við hreinsun

Ostruveiðimenn við Mexíkóflóa taka saman búnað sinn.
nordicphotos/AFP
Ostruveiðimenn við Mexíkóflóa taka saman búnað sinn. nordicphotos/AFP
Tony Hayward, framkvæmdastjóri olíufélagsins BP, segir að fyrirtækið muni greiða kostnaðinn við að hreinsa upp olíu frá olíuborpallinum Deepwater Horizon, sem sökk í Mexíkóflóa.

„Við berum ábyrgð, ekki á slysinu, heldur á olíunni," sagði Hayward. Hann segir að tækjabúnaður í olíuborpallinum hafi bilað og þess vegna hafi olían lekið út. Olían er byrjuð að berast á strandir Mexíkóflóa, en með flotgirðingum og öðrum aðgerðum er reynt að draga úr tjóninu.

Líklegt þykir að olía haldi áfram að streyma úr olíulindinni í að minnsta kosti viku. Unnið er að því að smíða 74 tonna stál- og steypukassa sem reyna á að láta síga niður á hafsbotninn, en þar eiga þeir að taka við olíunni sem síðan verður leidd úr þeim upp í olíuflutningapramma á yfirborði sjávar.

Þangað til má búast við að nærri fjórar milljónir lítra streymi út í hafið til viðbótar við þær tíu milljónir lítra sem þegar hafa lekið út.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×