Handbolti

Snorri: Einn besti leikur íslenska landsliðsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd/DIENER/Leena Manhart

Snorri Steinn Guðjónsson sagði að íslensku landsliðsmennirnir hefðu lært mikið af leiknum við Austurríki fyrr í vikunni. Það skilaði sér í frábærum fimm marka sigri á Dönum, 27-22, í Linz í kvöld.

„Við erum gríðarlega ánægðir. Loksins kom það,“ sagði Snorri, kampakátur eftir leikinn. „Þetta voru gríðarleg áföll sem við urðum fyrir í tveimur leikjum í röð og ekki sú byrjun sem við óskuðum okkur fyrir mót.“

„En við náðum að koma til baka og það sýnir hvað liðið getur. Við erum líka ekki að vinna hvaða lið sem er - þetta eru Danir. Menn voru að hrauna yfir varnarleikinn eftir leikinn gegn Austurríki og Diddi, Sverre og þessir gaurar sýndu bara úr hverju þeir eru gerðir.“

„Við vorum gríðarlega vel undirbúnir í kvöld og gengum í allar þeirra aðgerðir. Við ætluðum auðvitað að gera það líka á móti Austurríki en það gekk ekki. Við sýndum mikinn karakter og það er góður árangur að fara með þrjú stig með okkur í milliriðlakeppnina.“

En sóknarleikurinn var heldur ekki slakur í kvöld enda danska vörnin ein sú öflugasta í heimi.

„Danska vörnin er frábær en Aron kom mjög öflugur inn og þrumaði mikið á markið. við vorum líka að finna Robba vel og sóknarleikurinn var almennt mjög fínn. Ef við höldum svo varnarleiknum góðum og fáum okkar hraðaupphlaup þá erum við bara á grænni grein.“

„Við sýndum í dag hvernig á að gera hlutina. Ef við höldum þessum gæðum á leik liðsins þá vitum við hvar það getur endað.“

„Þetta var með betri leikjum sem íslenska landsliðið hefur spilað. Það vill vera þannig þegar allt fer í þrot þá kviknar í liðinu. Ég veit ekki af hverju en Austurríkisleikurinn kenndi okkur sitthvað. Það sást best á því að við spiluðum gríðarlega vel síðustu tíu mínúturnar þó svo að við værum nokkrum mörkum yfir í leiknum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×