Skoðun

Meira um málfar og umburðarlyndi

Ásgrímur Angantýsson skrifar
Þorgrímur Gestsson, blaðamaður og rithöfundur, skrifar grein í Fréttablaðið 10. júlí sl. þar sem hann bregst við pistli mínum um málfar og umburðarlyndi í Víðsjá 6. júlí og styttri útgáfu af honum í Fréttablaðinu daginn eftir. Kjarninn í grein Þorgríms er sá að ég eigi frekar að einbeita mér að því að lesa prófarkir og leiðbeina starfsmönnum Ríkisútvarpsins um gott málfar en að ráðast á málvöndunarmenn og þá sem láta sig móðurmál okkar varða.

Grein mín var ekki árás á málvöndunarmenn heldur gagnrýni á dómhörku og alltof ríka tilheigingu til umvöndunar í umræðu og ábendingum um málfar. Það væri reyndar í meira lagi sérkennilegt ef ég hefði ætlað mér að koma „afturhaldsorði“ á þá sem unna málinu og leggja stund á málvöndun því að ég tilheyri sjálfur þeim hópi. Ekki kannast ég heldur við að ég né aðrir íslenskufræðingar af yngri kynslóðinni amist við „hvers konar athugasemdum við málfar“. Í starfi mínu legg ég einmitt mikla áherslu á vandað mál og viðeigandi málsnið og Þorgrímur þarf ekki að óttast að ég leggi blessun mína yfir hvað sem er. Samkvæmt málstefnu Ríkisútvarpsins eiga starfsmenn að leggjast á eitt til að málfar sé til fyrirmyndar. Ég veit vel að það tekst ekki alltaf en það er sannarlega markmiðið.

Þorgrímur tekur undir það meginsjónarmið íslenskrar málstefnu að það beri að varðveita íslenskt málkerfi í megindráttum og efla málnotkun á sem flestum sviðum en spyr hvar ég vilji draga mörkin milli þess og „bókstafstrúarinnar“ sem ég talaði um. Því er til að svara að það er vel hægt að þjóna markmiðum málstefnunnar án þess að festast í einstrengingslegum viðmiðum um rétt og rangt. Með bókstafstrú í málfarsefnum á ég t.d. við þá hugmynd að það sem ekki finnist í orðabókum eða handbókum hljóti að vera vitlaust. Samkvæmt því væri rétt að segja Hann rústaði íbúðina af því að orðabókin gefur slík dæmi en Hann rústaði íbúðinni væri talið rangt mál þó að það sé afar útbreitt og samræmist betur máltilfinningu margra. Tilbrigði eins og þessi eru raunar engin ógn við íslenskt málkerfi. Nýjungin felst einfaldlega í því að andlagið er haft í þágufalli en ekki þolfalli og hvorki þolfallinu né beygingarkerfinu er nokkur hætta búin því að flest andlög eru eftir sem áður í þolfalli: Kennarinn braut stólinn, Konan kyssti manninn o.s.frv.

Að lokum vil ég stinga upp á eftirfarandi „uppskrift“ að málfarsleiðbeiningum:

1) Að skilgreina nýjungina og lýsa því hvernig hún víkur frá hefðbundinni málnotkun.

2) Að skýra hvers vegna breytingin kemur upp og hvernig notkuninni er háttað.

3) Að upplýsa um að nýja notkunin þyki ekki gott mál og þess vegna sé ástæða til að forðast hana við formlegar aðstæður.

Ef vel tekst til verður viðtakandinn einhvers vísari, áttar sig á um hvað málið snýst og getur myndað sér sjálfstæða skoðun. Það er líka auðveldara að muna það sem maður skilur. Málfarsábendingar snúast of oft upp í einfölduð boð og bönn þar sem viðtakandanum eru ekki gefnar nægilegar forsendur til að fara eftir þeim. Það er kannski einmitt þess vegna sem þær missa oft marks.



Skoðun

Sjá meira


×