Lífið

Thad helgaðir tónleikar

Tónlist Thad Jones er helguð dagskrá á mánudagskvöld í Leikhúskjallaranum.
Tónlist Thad Jones er helguð dagskrá á mánudagskvöld í Leikhúskjallaranum.

Stórsveit Reykjavíkur heldur tónleika í Þjóleikhúskjallaranum á mánudagskvöld kl. 21. Á efnisskrá verður öll tónlistin af einni frægustu stórsveitaplötu allra tíma; Consummation með Stórsveit Thad Jones/Mel Lewis frá 1970, en hluti hennar var einmitt hljóðritaður í maímánuði það ár, fyrir réttum fjörutíu árum.

Tónlistin er öll eftir Thad Jones (1923-86), einn helsta meistara big band-tónlistar síðustu áratuga. Auk laganna átta af Consummation verða flutt nokkur lykilverk af efnisskrá stórsveitar Thad Jones og Mel Lewis. Stjórnandi á þessum tónleikum verður Sigurður Flosason.

Thad Jones var trompetleikari með hljómsveit Count Basie á árunum 1954-63 og skólaðist þar í einu stærsta og besta bandi sinnar tíðar. Ásamt trommuleikaranum Mel Lewis stofnaði hann árið 1965 The Thad Jones/Mel Lewis Jazz Orchestra, en sú hljómsveit leikur enn á hinum þekkta djassklúbbi The Village Vanguard í New York. Jones yfirgaf sveitina árið 1978 og flutti til Danmerkur. Þar stjórnaði hann m.a. Stórsveit danska ríkisútvarpsins og stofnaði síðar Eclipse-stórsveitina. Eftir lát Counts Basie árið 1984 flutti Thad Jones aftur til Bandaríkjanna, tók við stjórn þeirrar sveitar og starfaði með henni til dauðadags árið 1986.

Thad Jones er almennt talinn í hópi mikilvægustu tónskálda stórsveitasögunnar og hafa tónsmíðar hans og útsetningar haft gríðarleg áhrif. Kraftmikil og áleitin tónlist hans hefur oft skapað magnaða stemningu, ekki síst á klúbbum.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.