Erlent

Duffy ætlar ekki að kjósa í bresku þingkosningunum

Duffy og Brown ræða saman.
Duffy og Brown ræða saman.

Gillian Duffy, sem Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, kallaði fordómafulla konu (e. bigoted), ætlar ekki að kjósa í þingkosningunum í næstu viku samkvæmt breska götublaðinu The Daily mail.

Málið er allt hið spaugilegasta þrátt fyrir alvarlegan undirtón en sumir telja að þetta smáhneyksli, sem varð risastórt að lokum, verði til þess að Verkamannaflokkurinn missi alla möguleika á að sigra þingkosningar sem haldnar verða í næstu viku.

Forsaga málsins er sú að Brown hitti Duffy ásamt fleiri stuðningsmönnum Verkamannaflokksins í síðustu viku. Aðstoðarmenn forsætisráðherrans höfðu búið svo um hnútana að Brown myndu eingöngu ræða við dygga kjósendur flokksins. En Duffy hefur aldrei kosið neitt annað en Verkamannaflokkinn.

Í miðju samtali þeirra spyr Dyffy hvað í ósköpunum Brown ætli að gera varðandi innflytjendur frá Austur-Evrópu. Brown varð dálítið brugðið en reyndi að benda henni á að það væri svo sem ekkert sérstakt vandamál með innflytjendur frá Austur-Evrópu, frekar en alla þá Breta sem flytja til annara landa í Evrópu.

Brown var með hljóðnema fastan á sér þannig að Sky sjónvarpsstöðin gæti örugglega hljóðritað samtölin, enda var augnablikið eingöngu sýnt í áróðurskyni af hálfu flokksins.

Eftir samræðurnar gleymdi Brown hinsvegar að taka af sér hljóðnemann og settist upp í bíl Svo kallaði hann Duffy fordómafulla konu í samtali við aðstoðarmann sinn.

Málið hefur þótt hið háðuglegasta. Brown hefur meðal annars farið heim til Duffy og beðið hana persónulega afsökunar. Hún tók við afsökunarbeiðninni. Þær stórfréttir voru að sjálfsögðu kynntar með pompi og prakt í anddyrinu hjá Duffy.

Nú heldur málið sem sagt áfram, Brown til mikillar mæðu, því Duffy hefur ákveðið að kjósa ekki neinn flokk í fyrst skiptið á ævi sinni.

Í viðtali við Daily Mail segist hún ekki reið. Hún er enn þá dálítið sár út í Brown vegna málsins. En þrátt fyrir að Duffy kjósi ekki þá má vera að þáttur hennar í kosningabaráttunni verði engu að síður það dýrkeyptasta fyrir Brown á síðustu metrunum fyrir kosningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×