Lífið

Af átvöxtum skuluð þið þekkja þá

Tónlist Guðrún Jóhanna gómar ljóð Þórarins við lög Hauks í Gerðubergi á morgun.
Tónlist Guðrún Jóhanna gómar ljóð Þórarins við lög Hauks í Gerðubergi á morgun.

Þórarinn Eldjárn hefur átt greiða leið með sín háttbundnu kvæða allar götur síðan Atli Heimir Sveinsson sló lagboða um Guðjónskvæði hans meðan skáldið sat enn í menntaskóla. Jóhann G. Jóhannsson tók fyrir fáum árum stóran slurk úr kvæðabrunni skáldsins en þess utan hefur Þórarinn sett saman fjölda ljóða til söngs í leiksýningar.

Og nú er enn gerð atlaga að ljóðum hans: á morgun verða tónleikar í Gerðubergi á vegum fyrirtækis Guðna Franzsonar, Tóneyjar, og hefjast kl. 14. Þar mun Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir ásamt Caput hópnum flytja ljóð úr bókinni Grannmeti og átvextir eftir Þórarin Eldjárn við lög Hauks Tómassonar.

Lagaúrval Hauks við ljóð Þórarins hefur verið hljóðritað, en það var gert í Salnum í Kópavogi árið 2009 og er stefnt að því að diskurinn komi út á næstu dögum. Aðgangur á tónleikana er ókeypis.

Guðrún Jóhanna tekst hér á við ísmeygilegan húmor, útúrsnúninga og orðaleiki og verður spennandi að heyra og sjá túlkun hennar á lögum Hauks. Aðrir flytjendur eru: Kolbeinn á flautu, Eiríkur Örn Pálsson á trompet, Zbigniew Dubik á fiðlu, Sigurður Halldórsson á selló og Snorri Sigfús Birgisson á píanó. Stjórnandi er Guðni Franzson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.