Erlent

Undirbúa kosningar í skugga harmleiks

Pólskir stjórnmálamenn halda á kertum á minningarathöfn sem var haldin fyrir utan þinghús landsins. Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, er lengst til hægri. mynd/ap
Pólskir stjórnmálamenn halda á kertum á minningarathöfn sem var haldin fyrir utan þinghús landsins. Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, er lengst til hægri. mynd/ap

Fréttaskýring: Hvaða áhrif hefur flugslysið í Rússlandi á stjórnmála- og efnahagslíf Pólverja?

Flugslysið í Rússlandi á laugardag þegar 96 manns fórust, þar á meðal forseti Póllands, Lech Kaczynski, yfirmenn hersins og pólskir þingmenn, gæti haft mikil áhrif á stjórnmála- og efnahagslíf Pólverja á næstunni. Kaczynski og föruneyti ætlaði að vera viðstatt athöfn í tilefni þess að sjötíu ár eru liðin síðan sovéskir leyniþjónustumenn drápu yfir tuttugu þúsund Pólverja í Katyn-skógi í Sovétríkjunum.

Pawel Gras, talsmaður pólsku ríkisstjórnarinnar, segir að ekki ríki upplausnarástand í landinu. Starfsemi hersins og ríkisstofnana gangi eðlilega fyrir sig þrátt fyrir þennan mikla harmleik.

Michael Boni, yfirmaður í forsætisráðuneytinu, segir að haldið sé góðu sambandi við starfandi seðlabankastjóra Póllands, Piotr Wiesiolek, en seðlabankastjórinn Slawomir Skrzypek var á meðal þeirra sem fórust í slysinu. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur sent Piotr samúðarkveðjur vegna fráfalls Skrzypeks.

Haldinn verður fundur í dag hjá efnahagsráði pólska seðlabankans þar sem farið verður yfir stöðu mála. „Við erum tilbúin að taka ýmsar ákvarðanir en við sjáum ekki fram á að eitthvað hættulegt muni gerast hvað varðar efnahaginn,“ sagði Boni. Stjórnvöldum í landinu hefur hingað til tekist að koma í veg fyrir að kreppa skelli á og miðað við yfirlýsingar Boni mun það ekki breytast.

Starfandi forseti Póllands, Bronislaw Komorowski, ætlar að tilkynna um forsetakosningar innan tveggja vikna. Samkvæmt stjórnarskrá landsins verður að halda kosningarnar innan sextíu daga frá tilkynningunni.

Kaczynski ætlaði að bjóða sig fram til annars kjörtímabils í forsetakosningum sem halda átti í haust. Búist var við að hann myndi eiga erfitt uppdráttar gegn Komorowski og frjálslyndum flokki hans. Íhaldsflokkur Kaczynski gæti aftur á móti fengið fjölda samúðaratkvæða vegna fráfalls forsetans, hvað þá ef flýta á kosningunum fram í lok júní.

freyr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×