Lífið

María og Sigga leita að nýjum stjörnum

María Björk og Sigríður Beinteinsdóttir ætla að ferðast út um allt land og leita að næstu söngstjörnu Íslands.Fréttablaðið/Anton
María Björk og Sigríður Beinteinsdóttir ætla að ferðast út um allt land og leita að næstu söngstjörnu Íslands.Fréttablaðið/Anton

„Þetta er fyrsta alvöru keppnin fyrir þennan aldurshóp," segir María Björk Sverrisdóttir en hún ásamt Sigríði Beinteinsdóttur ætla að þvælast um allt Ísland og leita að næstu söngstjörnu landsins í söngvakeppninni Röddin. Keppnin er hugsuð fyrir krakka á aldrinum tólf til sextán ára og ætlar Stöð 2 að fylgjast grannt með gangi mála en þættir um keppnina verða sýndir á sjónvarpsstöðinni í haust.

María og Sigríður eru auðvitað þaulreyndar báðar tvær í þessum bransa, María hefur rekið Söngskóla Maríu Bjarkar í áratug og var umboðsmaður Jóhönnu Guðrúnar og Sigríður á farsælan feril að baki í söng, bæði ein og með hljómsveitinni Stjórninni. Þær segja mikla þörf fyrir svona keppni enda hafi bæði Idolið og X-Factor stílað inn á eldri markhópa. „Ég var mikið spurð sem dómari í Idolinu af hverju það væri engin svona keppni fyrir yngra fólkið. Þar var alltaf verið að horfa á fólk sem væri orðið sextán ára," segir Sigríður og undir það tekur María Björk. Þær segja jafnframt að svona keppni sé holl fyrir ungt fólk, þetta styrki sjálfsmynd þeirra og æfi það í að koma fram. „Þau læra líka að taka uppbyggilegri gagnrýni, þarna verður enginn niðurlægður heldur fær viðkomandi bara að heyra eitthvað jákvætt sem hann getur byggt á."

Fyrsta leitin verður í Reykjavík á Hótel Loftleiðum 19. júní og þaðan verður förinni heitið út á land. Sigurvegarinn fær veglegan farandbikar og lag á safnplötu frá Senu sem gefin verður út fyrir jólin en allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á roddin.is.- fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.