Lífið

Skólakrakkar misstu af Ham

Elvar Geir og nemendur hans úr Reykjanesbæ misstu af rokksveitinni Ham.
Elvar Geir og nemendur hans úr Reykjanesbæ misstu af rokksveitinni Ham.
„Þetta var bara hræðilegt," segir Elvar Geir Sævarsson úr hljómsveitinni Hellvar.

Fimm krakkar úr efstu bekkjum grunnskóla Reykjanesbæjar ætluðu að fylgjast með rokksveitinni Ham stilla saman strengi sína fyrir tónleika sína á Nasa á fimmtudagskvöld. Krakkarnir, sem eru í rokkáfanga hjá Elvari Geir, höfðu fengið leyfi hjá skipuleggjendum Airwaves til að fylgjast með einni af uppáhaldshljómsveitum sínum. En þegar Ham-liðar þurftu að fresta undirbúningnum um fjóra klukkutíma vegna borgarráðsfundar söngvarans Óttars Proppé urðu krakkarnir, sem höfðu gert sér sérstaka ferð til Reykjavíkur, fyrir miklum vonbrigðum.

„Ég veit að þetta var ákveðið kvöldið áður en ég veit ekki í hverra verkahring var að láta vita af þessu," segir Elvar. Hann er sjálfur mikill Ham-aðdáandi og var mættur á tónleika sveitarinnar um kvöldið þrátt fyrir vonbrigðin fyrr um daginn. „Ég var með smá beiskt eftirbragð. Mér fannst þeir skömmustulegir uppi á sviði. Það var eins og þeir hefðu slæma samvisku," segir hann í léttum dúr og vill taka skýrt fram að hann og krakkarnir beri engan kala til piltanna í Ham.

Söngvara Ham, Óttari Proppé, þykir þetta mál mjög leiðinlegt og kennir samskiptaleysi hjá skipulagsaðilum hátíðarinnar um. „Ég hef ekki hugmynd um hvar í ferlinu þetta fór úrskeiðis en við viljum endilega bjóða þeim á næsta „sándtékk", hvenær sem það verður."- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.