Skoðun

Nýtt framboð

Bjarni Gíslason skrifar
Fermingarbörn hafa boðið sig fram. Ekki til stjórnlagaþings, ekki til Alþingis heldur til að hjálpa náunga sínum í Afríku. Þau hafa ekki boðað til funda og umræðna, til stefnumörkunar og áætlana um hvað skal gera í framtíðinni heldur framkvæma þau strax.

Fermingarbörn um allt land munu 1.-9. nóvember banka upp á hjá landsmönnum og leita eftir stuðningi við vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku. Þau banka upp á og kynna stefnumál sitt, að hjálpa jafnöldrum sínum í Afríku sem margir hverjir hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Síðan bjóða þau þér að gera eitthvað í málinu með því að leggja þitt af mörkum í merkta og innsiglaða bauka frá Hjálparstarfinu.

Mörg fermingarbarnanna hafa hlustað á Stephen og Charity, góða gesti frá Úganda sem hafa sagt frá lífi sínu og uppvexti, hvernig þau urðu bæði munaðarlaus vegna þess að foreldrar þeirra dóu úr alnæmi. Erfiðri lífsbaráttu þar sem vatn og matur var af skornum skammti og hvernig stuðningur í gegnum vatnsverkefni Hjálparstarfsins hefur gefið von og bætt aðstæður til muna.

„Þau eru svo elskuleg og áhugasöm," sagði Charity um fermingarbörnin „og ótrúlega fórnfús og umhugað um að koma jafnöldrum sínum í fjarlægri álfu til hjálpar. Ég er lifandi dæmi um árangurinn. Án stuðnings Hjálparstarfs kirkjunnar væri ég enn þá fátæk ómenntuð stúlka með litla möguleika til betra lífs. En í dag er ég í háskólanámi og vonast eftir góðu starfi og þar með betra lífi fyrir mig og yngri systkini mín sem ég ber ábyrgð á."

Tökum framboði fermingarbarnanna vel, þau eru traustsins verð, styðjum stefnumál þeirra og leggjum okkar af mörkum.




Skoðun

Sjá meira


×