Skoðun

Opið bréf til Guðbjarts Hannessonar

Gabríela Unnur Kristjánsdóttir og Sigurður Kári Árnason skrifar
Í viðtali á Bylgjunni þann 4. októ­ber sl. lýstir þú yfir furðu þinni á upphæð grunnframfærslu sveitarfélaganna en hún flakkar á milli 120-126 þúsund króna eftir sveitarfélögum. Nefndir þú að einn helsti þáttur þess að sporna gegn fátækt væri að hækka framfærsluna enda ekki raunhæft að áætla að 120 þúsund krónur dugi til að einstaklingar nái endum saman.

Slíkri yfirlýsingu frá velferðarráðherra ber að fagna sem viðurkenningu um þá staðreynd að í dag er ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur geti framfleytt sér á 120 þúsund krónum á mánuði. Hins vegar felst í réttmætri gagnrýni þinni á sveitarfélögin ákveðin afneitun sem ráðherra í núverandi ríkisstjórn. Réttast væri að athuga fyrst hvaða grunnframfærslu samráðherrar þínir geri ráð fyrir að dugi einstaklingum.

Lánasjóður íslenskra námsmanna er ríkisstofnun og er grunnframfærsla sjóðsins ákveðin í úthlutunarreglum hans sem menntamálaráðherra samþykkir. Byggist framfærslan að meginstefnu til á þeim fjárframlögum sem ákveðin eru í fjárlögum. Úthlutunarreglur LÍN gera ráð fyrir að grunnframfærsla einstaklings í leiguhúsnæði sé aðeins 120.720 kr. sem er einmitt sama upphæð og grunnframfærsla sveitarfélaganna. Það er því ljóst að sveitarfélögin geta skýlt sig á bak við þessi viðmið ríkisins um grunnframfærslu þegar þau er gagnrýnd. Í áraraðir hefur grunnframfærsla LÍN verið undir öllum velsæmismörkum. Framfærslugrunni sjóðsins hefur verið varpað fyrir róða og sjóðurinn þar með viðurkennt að námslánin byggjast ekki á framfærsluþörf einstaklings heldur því hversu miklu fjármagni honum er veitt hverju sinni. Stúdentar hafa ítrekað bent á að umrædd grunnframfærsla dugi hreinlega ekki en hafa ekki, fyrr en nú, fengið skýra viðurkenningu á því frá ráðamönnum þjóðarinnar.

Líkt og fram hefur komið fögnum við orðum þínum en bendum þér og háttvirtum menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, á að eðlilegast væri að ríkið sýndi fordæmi og lagfærði eigin grunnframfærslu áður en farið er að beina spjótum að sveitarfélögunum. Það er okkar einlæga von að þú fylgir orðum þínum eftir og beitir þér fyrir hækkun grunnframfærslu námslána.



Skoðun

Sjá meira


×