Innlent

Landlæknir skoðar reikninga tannlæknis

Landlæknir segir að athugað verði hvernig skráningu heilsufarsupplýsinga á stofu tannlæknisins á Suðurnesjum sé háttað.
Landlæknir segir að athugað verði hvernig skráningu heilsufarsupplýsinga á stofu tannlæknisins á Suðurnesjum sé háttað.
„Það er alfarið mál Sjúkratrygginga Íslands,“ segir Geir Gunnlaugsson landlæknir spurður álits á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) þess efnis að hætta viðskiptum við tannlækni á Suðurnesjum sem ákærður hefur verið fyrir fjársvik upp á 129 þúsund krónur. Geir segir landlæknis­embættið ekkert hafa með þann þátt málsins að gera og sé það einungis á hendi Sjúkratrygginga.

Sjúkratryggingar rituðu landlæknisembættinu bréf vegna ákvörðunarinnar um stöðvun á endurgreiðslum til tannlæknisins þar sem segir að ákvörðunin verði tekin til endurskoðunar staðfesti landlæknir að starfsemi tannlæknisins uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf.

Spurður hvort embættið hafi svarað því bréfi segir landlæknir svo ekki vera, en hann og forstjóri SÍ hafi rætt málið.

Dómur hefur enn ekki gengið í málinu og spurður hvað það þýði verði tannlæknir­inn sýknaður eða málinu vísað frá dómi segir landlæknir ákvörðunina um að kæra hann til lögreglu alfarið hjá SÍ. Komi til sýknu eða frávísunar verði SÍ eða stjórnvöld að taka ákvörðun í framhaldi af því.

Landlæknir segir hins vegar faglegan þátt málsins vera á borði landlæknisembættisins.

„Hinn faglegi þáttur í starfi tannlæknisins verður skoðaður og hvernig hann samræmist þeim reikningum sem eru fram reiddir af hans hálfu til Sjúkratrygginga. Það er vinna sem er í gangi hjá okkur.“ Landlæknir segir einnig að athugað verði hvernig skráningu heilsufarsupplýsinga á stofu tannlæknisins sé háttað. Ákveðnar reglur séu um hvað eigi að skrá í heilbrigðisþjónustu og hvernig eigi að skrá það. Landlæknisembættið muni fá tannlækni til að inna af hendi þá vinnu hvað varðar tannlækninn á Suðurnesjum.

„Þetta mál hefur verið lengi til skoðunar og Sjúkratryggingar hafa haft óþægilegan grun um að ekki væri allt með felldu. Þess vegna hafa ákveðnir þættir í starfi þessa tiltekna tannlæknis verið til skoðunar sem Landlæknisembættið hefur komið að fyrr á árum, áður en ég kom til starfa. En nú þegar liggja fyrir gögn sem sýna ósamræmi milli framlagðra reikninga og tannviðgerða.“ jss@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×