Lífið

Hönnun Sonju Bent vekur athygli ytra

Sonja Bent segir það heiður að hafa prýtt upphafssíðu bresku vefsíðunnar Not Just A Label. Fréttablaðið/Stefán
Sonja Bent segir það heiður að hafa prýtt upphafssíðu bresku vefsíðunnar Not Just A Label. Fréttablaðið/Stefán

Hönnun Sonju Bent var á upphafssíðu vefsíðunnar Not Just A Label fyrir skemmstu, en síðan er eins konar vefsamfélag hönnuða hvaðanæva að úr heiminum og eru notendur hans rúmlega 3.500 manns.

Að sögn Sonju velja stjórnendur síðunnar ákveðinn hönnuð til að vera á forsíðu hennar nokkrar vikur í senn, en þetta er í annað sinn sem Sonja er valin á forsíðuna.

„Þetta er vefsamfélag ætlað hönnuðum þar sem þeir geta kynnt sig og sínar vörur fyrir hver öðrum og væntanlegum kaupendum. Auk þess er hægt að selja vörur sínar á síðunni og einnig fær maður tilkynningar um laus störf, hönnunarsamkeppnir og styrki í gegnum þessa síðu," úskýrir Sonja og segir það mikinn heiður að hafa verið valin á forsíðuna.

„Þetta er auðvitað mikill heiður en þess utan finn ég að áhugi fólks á hönnun minni eykst eftir að hafa verið á forsíðu vefjarins, þannig að þetta er mikil hjálp líka. Síðast fékk ég meðal annars umfjöllun í belgísku tímariti."

Sonja segist enn fá mikla athygli vegna útskriftarlínu sinnar frá árinu 2007 sem var innblásin af origami, japanskri pappírslist.

„Ég fæ mikið af fyrirspurnum um sömu flíkina, sem er einmitt sú flóknasta sem ég hef gert. Eins og staðan er núna þá hef ég ekki undan við að gera flíkurnar þar sem ég stend ein í þessu. Það hefur ekki verið hægt að framleiða vöruna hér á landi og hingað til hefur verið of dýrt að framleiða vörurnar erlendis. Ég verð þó að finna lausn á þessu bráðlega því ekki nennir fólk að bíða endalaust eftir vörunum," segir Sonja að lokum og hlær.- sm








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.