Innlent

Leigusamningar áfram í erlendri mynt

Kaupleigusamningar voru aðallega gerðir um kaup einstaklinga á bílum en fjármögnunarleigusamningar um kaup fyrirtækja á tækjum. fréttablaðið/pjetur
Kaupleigusamningar voru aðallega gerðir um kaup einstaklinga á bílum en fjármögnunarleigusamningar um kaup fyrirtækja á tækjum. fréttablaðið/pjetur
Íslandsbanki og Lýsing hafa komist að þeirri niðurstöðu að dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingu lána nái eingöngu yfir kaupleigusamninga en ekki aðra leigusamninga svo sem fjármögnunarleigusamninga.

Íslandsbanki sendi tilkynningu til viðskiptavina sinna í síðustu viku varðandi málið og Lýsing birti frétt á vefsíðu sinni í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka er um að ræða á þriðja þúsund leigusamninga af þeirra hálfu en slíkir samningar eru aðallega gerðir við fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um fjármögnun vinnuvéla í ágúst 2007 kemur fram að bændur hafi fremur nýtt sér kaupleigusamninga, vegna möguleika sem slíkir samningar hafi veitt í afskrift á tækjakosti. Þar er um leið haft eftir starfsmanni Glitnis banka að verktakar hafi fremur kosið fjármögnunarleigusamninga vegna möguleika til skattfrestunar sem sú leið hafi haft í för með sér.

Arion banki veitti engin gengistryggð bílalán og hefur því ekki skoðað málið. Avant gerði nær eingöngu kaupleigusamninga við sína viðskiptavini og hefur því ekki skoðað þetta heldur. Ekki fengust upplýsingar frá Landsbankanum og SP-fjármögnun um málið.

Í tilkynningu Íslandsbanka segir að efni fjármögnunarleigusamninga sé í veigamiklum atriðum frábrugðið kaupleigusamningum og að dómur Hæstaréttar hafi einungis náð til slíkra samninga, því verði áfram miðað við umsamda myntsamsetningu við útreikninga framtíðarleigureikninga á fjármögnunarleigusamingum.

Túlkun fyrirtækjanna byggist á því að dómur Hæstaréttar hafi eingöngu náð til lánasamninga og ekki sé hægt að skilgreina fjármögnunarleigusamning sem lánasamning þar sem eignin sem leigð er skiptir ekki um hendur.

magnusl@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×