Skoðun

Vegna ummæla formanns Lögmannafélagsins í Fréttablaðinu

Þórður S. Gunnarsson skrifar
Í Fréttablaðinu, fimmtudaginn 4. nóvember, er haft eftir Brynjari Níelssyni, að undirritaður hafi í álitsgerð, sem unnin hafi verið fyrir slitastjórn Glitnis banka h.f., í tengslum við málarekstur slitastjórnarinnar o.fl. á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni o.fl., fyrir dómstóli í New York, fullyrt, að dómstólar hér á landi geti ekki leyst úr jafn viðamiklu skaðabótamáli og málsóknin gegn „sjömenningunum“ sé.

Í tilvitnaðri álitsgerð minni segir m.a. í íslenskri þýðingu en frumtextinn er á ensku: „Óhætt er að fullyrða að íslenska dómskerfið sé bæði sjálfstætt og að innan þess starfi mjög hæfir dómarar með sérþekkingu á flestum réttarsviðum.“ Í framhaldinu er gerð grein fyrir uppbyggingu íslenska dómstólakerfisins og er væntanlega ekki ágreiningur um þá lýsingu.

Þá segir ennfremur í álitsgerðinni: „Íslenska dómskerfið er bæði undirfjármagnað og undirmannað, hvað varðar fjölda dómara og fjölda löglærðra aðstoðarmanna. Ljóst er að hrun íslensku bankanna í október 2008, eftirfarandi greiðslustöðvun þeirra og slitameðferð og gjaldþrot margra að stærstu fyrirtækjum landsins, hefur haft í för með sér verulega fjölgun munnlega fluttra dómsmála. Búist er við að sú þróun muni halda áfram enda eru hundruð dómsmála í undirbúningi.“

Þá eru í álitsgerðinni raktar upplýsingar frá Dómstólaráði um fjölda þeirra mála sem slitastjórnir og skiptastjórar fjármálafyrirtækja hafi vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur tímabilið 1. janúar 2005 til 30. júní 2010. Þar kemur fram að á árunum 2005-2009, að báðum árum meðtöldum, hafi samtals 42 mál af þessu tagi verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en þar af hafi 31 mál verið þingfest á árunum 2008 og 2009. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2010 hafi hins vegar 273 mál verið þingfest.

Þá segir í álitsgerðinni að búist sé við að málum af þessu tagi muni fjölga verulega á síðustu sex mánuðum yfirstandandi árs og að á árinu 2011 megi búast við verulegri aukningu mála miðað við árið 2010. Þá segir ennfremur að vænta megi þess að dómskerfið muni á komandi árum verða yfirhlaðið af dómsmálum, bæði einkamálum og refsimálum og að sum þessara mála muni verða mjög umfangsmikil, flókin og tímafrek. Þá segir: „Það er skoðun mín að íslenska dómskerfið sé vegna framangreindra staðreynda og fyrirsjáanlegs framtíðar málafjölda, illa undir það búið (ill prepared) að taka við jafn flóknu og umfangsmiklu máli og hér um ræðir, ekki vegna skorts á faglegri hæfni og metnaði heldur af fjárhagslegum og skipulagslegum ástæðum.“

Að fullyrða að ég hafi sagt að íslenskir dómstólar „geti ekki“ leyst mál af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir er rangt. Að dómstólar séu illa undir það búnir vegna fjárskorts, of fárra dómara og aðstoðarmanna, í ljósi þess gríðarlega álags sem nú er á dómstólunum og fer vaxandi, er hins vegar að mati undirritaðs rétt. Það veldur mér vonbrigðum að formaður Lögmannafélags Íslands skuli ekki sjá sér fært að taka undir þá ályktun. Eftir að álit mitt var skrifað og lagt fram hafa birst í fjölmiðlun, m.a. frá Dómstólaráði, upplýsingar um stórfellda fjölgun ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta fyrstu níu mánuði ársins og fyrirsjáanlega mikla fjölgun einkamála og refsimála á næsta ári og árum.




Skoðun

Sjá meira


×