Erlent

Obama er andkristur, múslimi og sósíalisti

Breska dagblaðið Telegraph greinir frá skoðannakönnun sem gerð var í Bandaríkjunum á dögunum og hafa niðurstöður hennar vakið mikla athygli. 24 prósent þeirra sem kjósa repúblikanaflokkinn eru á því að Obama sé andkristur og 38 prósent flokksmanna telja að forsetinn sé að gera „svipaða hluti og Hitler“ gerði á sínum tíma í Þriðja ríkinu.

Þá halda 67 prósent aðspurðra að Obama sé sósíalisti, 57 prósent að hann sé í raun og veru Múslimi á laun og 42 prósent segja að forsetinn sé hneigist til kynþáttahyggju. Þá eru 61 prósent aðspurðra vissir um að Obama vilji banna byssur alfarið.

Þá sögðust 22 prósent aðspurðra repúblikana vera vissir um að Obama vilji í raun að „hryðjuverkamennirnir fari með sigur af hólmi“, eins og það er orðað.

Ef litið er til allra sem þátt tóku, það er að segja einnig þeirra sem kjósa demókrataflokkinn, flokk Obama, kemur í ljós að 40 prósent Bandaríkjamanna virðast telja að Obama sé sósíalisti, 32 prósent að hann sé múslimi og 25 prósent eru á því að hann hafi ekki fæðst í Bandaríkjunum.

Rúmlega 2300 manns víðsvegar um bandaríkin voru spurðir í könnuninni en henni var ætlað að mæla hversu mikið öfgafullar skoðanir eigi upp á pallborðið hjá venjulegu fólki í landinu. Fólkið var beðið um að segja hvort ýmsar fullyrðingar um forsetann væru sannar eða ósannar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×