Skoðun

Hinir eiga að sýna ábyrgð

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir og stjórnmálafræðingur skrifa

Umræðan undanfarin tvö ár gefur tilefni til þess að velta fyrir sér vinnubrögðum á fjölmiðlun og hvernig fjölmiðlarnir fjalla um málefni sem varða fortíðina, líðandi stund en einnig framtíð þjóðarinnar. Þetta spjall leiðir hugan að túlkun almennt og það rót sem við verðum vitni að í samtímanum.

Það má segja að hagsmunaöfl berjist um að fá að segja söguna, túlka atburðarrásina og stýra því hvaða hugmynd almenningur gerir sér af ástandinu. Mörg okkar horfa fremur ráðvillt upp á umræðuna sem á sér stað í samfélaginu og málflutning í fjölmiðlum. Við spyrjum okkur hverjir það eru sem fá að hafa orðið eftir bankahrun og hvernig þeir fara með það vald.

Ríkisútvarpið sendir mönnum nauðungaráskrift sem ætti að spegla skyldu þess til þess að endurspegla hagsmuni sem flestra í umfjöllun sinni. Þar eru þó mestmegnis útvaldir sem fá að tala fyrir hagsmunum valdablokka en fórnarlömb gerræðislegs stjórnarfars fá litla athygli, rödd þeirra þögguð og málefni þeirra lítt reyfuð.

Umræðan og málflutningur ýmissa stjórnmálamanna eða túlkun þeirra og framsetning á veruleikanum þætti lítt sæmandi í ríkjum þar sem gæði og magn menntunar er almennt meiri en á Íslandi. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn vísa gjarnan til þjóðarinnar sem vel menntaðrar en það hefur þó verið vel kortlagt að brottfall úr námi er meira og menntunarstig á Íslandi er mun lakara í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þetta væri þó hægt að umbera ef áhersla væri lögð í meiri mæli á gæði menntunar og innihald hennar stæðist betur kröfur samtímans.

Stjórnmálamenn virðast treysta á dómgreindarleysi almennings og gagnrýnislausa meðhöndlun fjölmiðla þegar þeir flytja mál sitt. Formaður Sjálfstæðisflokksins vill ekki að einkavæðing bankanna verði rannsökuð eða að ráðherrar sæti ábyrgð. Forsætisráðherran telur að nýútkomi skýrsla sé áfellisdómur yfir stjórnmálamönnum, stjórnkerfi, stjórnsýslu og fjármálakerfi. Eigi að síður virðist forsætisráðherrann ekki koma auga á að það sé í mótsögn að tveir ráðherrar úr hrunstjórninni séu enn á ráðherrastólum.

Hinir svokölluðu hrunkvöðlar eða útrásarvíkingar fá síendurtekið drottningarviðtöl í ljósvaka- og pappírsfjölmiðlum þar sem þeir bera af sér sakir og benda á ábyrgð annarra en ofbjóða jafnframt réttlætisvitund almennings. Það sama á við um stjórmálamenn en þó sér í lagi forystu sjálfstæðisflokksins þar sem nánast hvert sæti er skipað einstaklingum sem annað hvort tengjast innherjasvikum, þjófnaði eða óeðlilegri fyrirgreiðslu í aðdraganda hruns en ennfremur er forysta Sjálfstæðisflokksins höfundur að fyrirkomulagi sem leiddi til gjaldþrots þjóðarbúsins.

Eins og fyrr segir þá horfa margir upp á þetta nokkuð ráðvilltir en aðrir loka sig af og leita skjóls fyrir ástandinu. Stóra spurningin er þó hvers vegna þetta ástand er ekki brotið upp en ábyrgðin á samfélagsbreytingum virðist hafa verið færð á hendur rannsóknarnefnda sem eiga að birta einhverskonar alternatívan sannleika við þann sem keyrt er með í fjölmiðlum og á vettvangi stjórnmálanna.

Jafnhliða því að forsætisráðherrann talar um áfellisdóm í skýrslu eru lög keyrð í gegnum þingið sem kveða á um áframhaldandi samtvinnun viðskipta og stjórnmála með heimild fyrir peningagjöfum af hálfu fyrirtækja sem vilja tryggja sérhagsmuni sem eiga litla samleið með velferð kjósenda. Umræða um vald og áhrif alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru að mestu þögguð niður.

Neyðarástand á heimilum skuldara fær litla athygli. Þegar á reynir setja stjórnmálamenn sig gegn því að þjóðin hafi aðkomu að mikilvægum málefnum. Þetta er einfaldlega Ísland í dag. Það er ekki fallegt en hvers vegna þarf að fela það?




Skoðun

Sjá meira


×