Lífið

Árstíðir í fyrsta sinn á erlendri grundu

Hljómsveitin Árstíðir er á leiðinni í tveggja vikna ferðalag til Svíþjóðar.
Mynd/Óskar Páll
Hljómsveitin Árstíðir er á leiðinni í tveggja vikna ferðalag til Svíþjóðar. Mynd/Óskar Páll

Þjóðlagahljómsveitin Árstíðir fer í tveggja vikna tónleikaferð til Svíþjóðar á næstunni. Þetta verður fyrsta tónleikaferð sveitarinnar erlendis. Tilefnið er útgáfa á fyrstu plötu hennar þar í landi síðastliðinn miðvikudag á vegum fyrirtækisins Adore Music.

„Við erum spenntir að sjá hvernig Svíarnir taka okkur. Helmingurinn af lögunum okkar er með enskum texta og hinn helmingurinn með íslenskum og þetta verður í fyrsta sinn sem við sjáum hvernig útlendingar fíla Árstíðir," segir söngvarinn Ragnar Ólafsson. Sveitin flýgur til Svíþjóðar eftir tvær vikur og dvelur þar í tólf daga. Tónleikar í Gautaborg, Stokkhólmi og Malmö eru fyrirhugaðir auk þess sem þeir félagar spila bæði í sjónvarpi og útvarpi.

„Við eigum eftir að læra mikið af þessari ferð," segir Ragnar.

Sveitin hefur einnig gert samning við norska fyrirtækið Phonofile-Artspages sem dreifir stafrænni tónlist sem þýðir að platan verður fáanleg víða um heim á síðum á borð við Amazon.com og á iTunes.

Í sumar ætla Árstíðir síðan í stuttar helgarferðir um Ísland. Spilamennska á hátíðinni Úlfaldi úr mýflugu á Mývatni og á Djúpavík er meðal annars fyrirhuguð.

Til að hita upp fyrir Svíþjóðartúrinn spila Árstíðir á Sódómu í kvöld. Einnig koma fram Lights on the Highway og Tom Hannay. Þeir sem vilja fylgjast betur með tónleikaferðinni til Svíþjóðar geta skoðað blogg Árstíðarmanna á Facebook og Myspace. - fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.