Skoðun

Um arð af veiturekstri

Eiríkur Hjálmarsson skrifar
Ef orku- eða veitufyrirtæki skilar eigendum sínum arði, jafngildir arðurinn þá skattlagningu á notendur? Þessi spurning var sett fram hér í blaðinu í gær og niðurstaða skrifarans virtist vera að svo væri. Voru Hvergerðingar og Kópavogsbúar sérstaklega tilteknir sem meint fórnarlömb Reykvíkinga í þessum efnum.

Nú háttar svo til að Kópavogsbúar áttu hlut í Orkuveitu Reykjavíkur. Bæjaryfirvöld kusu að selja hann. Með því afsöluðu þau sér ábyrgð á tiltekinni þjónustu við íbúana og fengu í staðinn hundruð milljóna í bæjarsjóð til að reka leikskóla, bæta gönguleiðir eða sinna öðrum þjóðþrifaverkum í sveitarfélaginu. Bæjaryfirvöld í Hveragerði gerðu slíkt hið sama. Þau seldu OR hitaveituna sína, ekki síst til að tryggja íbúum verð á þjónustunni sem bæjarfélagið treysti sér ekki til að tryggja. Talsverðar fjárhæðir runnu í bæjarsjóðinn og ábyrgðin á rekstrinum er Orkuveitu Reykjavíkur.

Gjaldskrá fyrir sérleyfisþjónustu á borð við veiturnar er háð ströngum reglum og er undir eftirliti stjórnvalda. Þau fylgjast með því að verð á þjónustunni sé í samræmi við kostnað eða fé sem í rekstrinum er bundið. Jafnframt er talið rétt að sá sem á veituna fái arð fyrir það að taka ábyrgð á að veita þjónustuna og vera með fjármuni sína bundna í veitukerfum frekar en að vera t.d. með þá inni á banka. Sá arður má vera svipaður og vextir af ríkisskuldabréfum. Takmarkaður arður veitufyrirtækja er ekki skattlagning heldur eðlilegt afgjald til eigenda fyrir að taka ábyrgð sem aðrir taka ekki.

 




Skoðun

Sjá meira


×