Innlent

Óþolandi að fá ekki sömu upplýsingar

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir óþolandi að fulltrúar opinberra starfsmanna hafi fengið kynningu á fjárlagavinnu ríkisstjórnarinnar og þeirri forgangsröðun sem þar er unnið út frá.

„Það hefur forysta ASÍ ekki fengið," segir Gylfi í pistli á heimasíðu ASÍ en segist hafa fengið staðfest að forsvarsmenn opinberra starfsmanna hafi fengið slíka kynningu. Stjórnvöld og samtök opinberra starfsmanna neiti að viðurkenna ASÍ sem næststærstu samtök opinberra starfsmanna á eftir BSRB en innan ASÍ séu 12.000 starfsmenn sem taki laun samkvæmt fjárlögum.

Í pistli sínum deilir Gylfi hart á skrif Árna Stefáns Jónssonar, formanns SFR, sem hefur gagnrýnt ASÍ og Samtök atvinnulífsins fyrir að hafna skattahækkunum og krefjast niðurskurðar í ríkisrekstri með tilheyrandi fækkun starfsmanna.

Gylfi segir að formaður SFR tali eins og það félag sé nafli alheimsins og hagsmunir opinberra starfsmanna yfirgnæfi hagsmuni annarra landsmanna. Í stöðugleikasáttmálanum sem formaður SFR stóð að fyrir hönd BSRB hafi verið ákveðið að 55% af aðlögun ríkissjóðs fram til 2011 yrði mætt með niðurskurði útgjalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×