Innlent

Algengast að ungir þjófar komi aftur

Samanburðarskýrsla kynnt Þau kynntu niðurstöður samnorrænu rannsóknarinnar, frá vinstri: Hafdís Guðmundsdóttir skrifstofustjóri, Erlendur S. Baldursson afbrotafræðingur og Páll E. Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar.
Samanburðarskýrsla kynnt Þau kynntu niðurstöður samnorrænu rannsóknarinnar, frá vinstri: Hafdís Guðmundsdóttir skrifstofustjóri, Erlendur S. Baldursson afbrotafræðingur og Páll E. Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar.
Ísland kemur mjög vel út í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir hvað varðar endurkomur brotamanna í fangelsi. Langalgengast er, að ungir þjófar komi aftur.

Þetta sýnir ný norræn samanburðarrannsókn sem Fangelsismálastofnun kynnti í gær. Þá sýna niðurstöður rannsóknarinnar að því er ekki þannig farið, eins og margir telja, að mikill meiri hluti þeirra sem afplána refsingu í fangelsum brjóti af sér á ný og komi fljótlega inn til afplánunar aftur.

Á Íslandi eru um 50 fangar á hverja 100 þúsund íbúa en um 70 á hinum Norðurlöndunum, að því er fram kom í máli Erlends S. Baldurssonar, afbrotafræðings hjá Fangelsismálastofnun, sem kynnti skýrsluna. Kostnaður við hvern fanga á ári er 8.8 milljónir króna.

Rannsóknin fór fram með þeim hætti að mælt var hversu margir af þeim sem látnir voru lausir árið 2005, eftir afplánun fangelsisrefsingar, höfðu fengið nýjan refsidóm innan tveggja ára. Sama athugun var gerð á þeim sem hófu samfélagsþjónustu 2005 eða sættu öðrum úrræðum utan fangelsa eins og rafrænu eftirliti.

Noregur reyndist hafa fæstar endurkomur þeirra sem luku afplánun fangelsisrefsinga. Ísland var þar í öðru sæti. Enn fremur sýndu niðurstöðurnar að fæstir Íslendingar sem afplánuðu refsingu utan fangelsis hlutu dóm innan tveggja ára. Noregur og Ísland komu best út úr þessum samanburði en Svíþjóð og Finnland verst.

Í máli Erlends kom fram að hluti skýringar á þeim mikla mun sem er á endurkomum þeirra sem afplánað hafa fangelsisrefsingu sé væntanlega sá að fangahóparnir á Norðurlöndum séu misjafnlega samsettir. Erlendur nefndi sem dæmi að um átta prósent fanga í Finnlandi sitji til dæmis inni fyrir hraðakstur. Stærð og gerð fangelsa, framkvæmd refsinga, starfsfólk, meðferðarmöguleikar og fleira hafi einnig áhrif á endurkomu. Rannsóknin leiddi í ljós að þeir sem dæmdir eru fyrir ofbeldisbrot, kynferðisbrot og fíkniefnabrot koma sjaldnar aftur heldur en þeir sem dæmdir hafa verið fyrir þjófnað og umferðarlagabrot. Brotamenn sem koma aftur koma yfirleitt ekki fyrir brot af sama tagi og fyrr. Kynferðisbrotamenn eru ólíklegastir til þess að vera dæmdir að nýju fyrir kynferðisbrot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×