Erlent

Efast um björgunarpakka AGS og ESB

Mótmælt í Aþenu. Almenningur í Grikklandi bregst hart við niðurskurði.
nordicphotos/AFP
Mótmælt í Aþenu. Almenningur í Grikklandi bregst hart við niðurskurði. nordicphotos/AFP

-AP- Um fjögur þúsund kennarar og nemendur tóku þátt í mótmælagöngu í Aþenu í gær gegn aðhaldsaðgerðum stjórnvalda, sem koma harkalega niður á almenningi. Sumir mótmælendanna lentu í átökum við lögreglu.

Áður höfðu um 100 stuðningsmenn Kommúnistaflokksins ruðst upp á Akropólishæð og breitt þar út mótmælaborða með áletrunum á grísku og ensku, ferðamönnum til nokkurrar skemmtunar - enda fengu þeir að fara upp á hæðina að skoða hinar frægu fornminjar þar þrátt fyrir mótmælin.

Ekki var að sjá að þátttakendum á fjármálamörkuðum þætti björgunaraðgerðir evruríkjanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem samkomulag tókst um á sunnudag, nógu sannfærandi. Verðfall varð af þeim sökum á helstu mörkuðum heims í gær.

„Þrátt fyrir það hve stór lánapakkinn er þá hafa menn vaxandi áhyggjur af því að hann dugi ekki til að dekka fjármögnunarþörf Grikkja næstu árin," sagði Mitul Kotecha, sérfræðingur hjá bankanum Credit Agricole CIB.

Aðhaldsaðgerðir stjórnarinnar fela í sér launalækkanir fyrir ríkisstarfsmenn, sem eru um 750 þúsund í allt. Auk þess verða eftirlaun allra lækkuð og neysluskattar hækkaðir enn frekar en orðið er.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×