Erlent

Flugstjórnarsvæðin samhæfð

Á fundinum í Brussel. Sim Kallas, samgöngustjóri Evrópusambandsins, ásamt Jose Blanco Lopez, samgönguráðherra Spánar.nordicphotos/AFP
Á fundinum í Brussel. Sim Kallas, samgöngustjóri Evrópusambandsins, ásamt Jose Blanco Lopez, samgönguráðherra Spánar.nordicphotos/AFP

-AP- Samgönguráðherrar Evrópusambandsríkjanna komu saman í gær á aukafundi í Brussel til að skiptast á skoðunum og meta afleiðingarnar af þeirri röskun sem varð á flugumferð í Evrópu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Á fundinum lögðu ráðherrarnir ríka áherslu á að hraðað verði svo sem kostur er áformum um nánari samhæfingu flugstjórnarsvæða Evrópuríkja, þannig að landamæri ríkja ráði ekki skiptingu svæðanna eins og nú er.

„Þær áætlanir sem Evrópusambandið hefur varðandi þetta eru nú þegar töluvert framsæknar, þannig að erfitt er að sjá hvernig hægt verður að hraða þeim umfram það sem nú er,“ segir Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs Isavia, nýja fyrirtækisins sem varð til við sameiningu Flugstoða og Keflavíkurflugvallar í byrjun mánaðarins.

Hann segir að Ísland eigi, eins og önnur Evrópu­ríki sem verða aðilar að nýja skipulaginu, að skila sínum tillögum um framkvæmdina árið 2012, þannig að nokkur ár eru þangað til verulegar breytingar verða að veruleika.

Á fundinum ítrekuðu ráðherrarnir einnig áform sín um að nýjar öryggisreglur um flug á gosöskuhættusvæðum verði settar á næsta fundi ráðsins, sem haldinn verður innan nokkurra vikna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×