Erlent

BAFTA: The Hurt Locker rúllaði þessu upp

Kathryn Bigelow, sæl og glöð með BAFTA styttuna sína.
Kathryn Bigelow, sæl og glöð með BAFTA styttuna sína. MYND/AP

Bandaríska stríðsmyndin The Hurt Locker kom sá og sigraði á BAFTA verðlaunahátíðinni sem haldin var í gærkvöldi í London.

Verðlaunin eru einskonar bresk útgáfa af Óskarsverðlaununum og líkt og þar á bæ hafði mesta keppnin staðið á milli The Hurt Locker og Avatar en báðar fengu þær átta tilnefningar. Þegar upp var staðið hafði The Hurt Locker fengið sex verðlaun en stórmyndin Avatar sem þegar hefur slegið öll aðsóknarmet, aðeins tvenn, fyrir tæknibrellur og listræna hönnun.

Kathryn Bigelow, leikstjóri The Hurt Locker, og fyrrverandi eiginkona James Cameron sem gerði Avatar, hlaut verðlaunin fyrir bestu leikstjórn og er það í fyrsta sinn sem kona hlýtur BAFTA verðlaunin fyrir leikstjórn. Mynd hennar var einnig valin sú besta á hátíðinni auk þess sem hún fékk verðlaun fyrir handrit, klippingu, kvikmyndatöku og hljóð.

Þess má geta að íslendingurinn Karl Júlíusson sá um listræna hönnun myndarinnar en hann hefur margsinnis áður unnið með Bigelow. Þau Colin Firth og Carey Mulligan fengu verðlaun fyrir besta leik fyrir myndirnar A Single man og An Education.

Mo'nique var valin besta aukaleikonan fyrir hlutverk sitt í Precious og Þjóðverjinn Christoph Waltz kom fáum á óvart þegar hann var valinn besti leikarinn fyrir frammistöðu sína sem SS foringinn Hans Landa í Inglorious Basterds, mynd Quentins Tarantinos.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×