Lífið

Ómar var fyrsti alvöru pollapönkarinn

Ómar og Heiðar bregða á leik í hljóðverinu á föstudag.
Ómar og Heiðar bregða á leik í hljóðverinu á föstudag.

„Ómar kemur með ýmis leikhljóð og karaktera sem hann hefur verið að túlka í gegnum tíðina," segir tónlistarmaðurinn og leikskólakennarinn Heiðar Örn Kristjánsson.

Heiðar, sem er oftast kallaður Heiðar í Botnleðju, vinnur nú að plötu með hljómsveitinni Pollapönk. Með honum í hljómsveitinni eru fleiri þungavigtarmenn í íslensku rokksenunni; Halli úr Botnleðju, Addi bróðir hans og bassaleikarinn Guðni Finns.

Eitt lag á plötunni heitir Ómar Ragnarsson og Ómar sjálfur leit við í hljóðverinu á föstudag og lagði blessun sína yfir lagið með viðeigandi hætti. „Hann hressir aðeins upp á lagið," segir Heiðar. „Það er mikið að gera hjá honum og hann er fljótur að vinna. Það var bara gengið í verkið og það gert mjög vel. Þetta er atvinnumaður. Hann negldi þetta gjörsamlega."

Heiðar segir að lagið sé lofsöngur um Ómar og liður í að kynna hann fyrir ungu kynslóðinni. „Ómar er einn af merkilegri mönnum landsins," segir hann. „Krakkarnir vita ekkert hver hann er, en við ólumst upp með honum og hann var mikill sprelligosi þegar við vorum ungir. Ómar er fyrsti alvöru pollapönkarinn!"

Útgáfufyrirtækið Record Records gefur plötuna út sem kallast Meira Pollapönk og er væntanleg í lok maí.

Á henni má finna hið stórgóða lag 113 Vælubíllinn sem heyra má hér á heimasíðu Record Records.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.