Skoðun

Hræðsluáróður bókamanna

Kristbjörn Árnason skrifar
Í allri eðlilegri umræðu er eðlilegt að ekki sé reynt að tala niður til einhverra aðila sem setja fram hugmyndir hvort sem um er að ræða tillögur um skatta eða eitthvað annað. Ekki er ég talsmaður hárra skatta og er reyndar á þeirri skoðun, að þeir aðilar á Íslandi sem ekki njóta skattaafsláttar í einhverri mynd greiði allt of háa skatta.

Ekki er hér mælt með því að bókaiðnaðurinn eigi að skila himin­háum sköttum. En sá sem þetta ritar er eindregið á þeirri skoðun, að allar samkeppnisgreinar iðnaðar, hvort sem um bókaiðnað er að ræða eða aðrar iðngreinar, eigi að standa jafnar fyrir lögum og þeim skyldum að skila sköttum til samfélagsins. Engin grein er öðrum merkilegri eða mikilvægari.

Þær fullyrðingar sem formaður og varaformaður rithöfunda halda fram eru ekki studdar með neinum rökum heldur er um getgátur að ræða. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að þegar virðisaukaskattur var lækkaður á bókum hér um árið var því haldið fram, að þá myndu bækur lækka í verði. Það varð auðvitað ekki raunin, vegna þess að bækur eru samkeppnisvara sem á í samkeppni innbyrðis og einnig aðrar vörur sem skila fullum skatti. Það eru aðstæður á markaði sem ráða verði bóka. Stóraukinn skattur á bækur fer líklegast ekki út í verðlagið því þá munu bækur seljast í minna mæli væntanlega.

Allar líkur eru á því að álagning útgáfufyrirtækjanna muni minnka, útgáfur sem þegar standa höllum fæti munu væntanlega hætta starfsemi og aðrar taka við. Einnig að laun rithöfunda lækka sennilegast, nema að þeim fækki eitthvað. Vissulega sársaukafullt. M.ö.o. þetta er kjarabarátta hjá þessum rithöfundum og er þá eðlilegast að ræða málið með þeim hætti og á heiðarlegan hátt.

Ekki þýðir að slá um sig með að fullyrða að lestrarfærni barna fari dvínandi því það er ekki rannsakað. Það eru miklar líkur á því, að þær hafi aldrei verið meiri en nú. Það getur alveg eins verið að bækur ætlaðar börnum séu bara svo lélegar og leiðinlegar að börn nenni ekki að lesa þær. Þær standist bara alls ekki samkeppni við annað sem börn hafa aðgang að.

Það er auðvitað þörf á því að skoða verðþróun á bókum með tilliti til áhrifa frá sköttum á verðlag og gæði bóka. Einkum væri fróðlegt að skoða verð á bókum á veltiárunum fram að hruni. Einnig hvort verð á bókum hafi lækkað við hrunið. Þetta þyrfti að skoða miðað við fast verðlag og gera þyrfti viðmiðunarkönnun við verð á öðrum samkeppnisiðnaðarvörum.




Skoðun

Sjá meira


×