Innlent

Samvinna um atvinnumál

Sigríður Mogensen skrifar
Ríkisstjórnin vill koma á víðtæku samstarfi í atvinnumálum við stjórnarandstöðuna og aðila vinnumarkaðarins í anda samstarfsins um lausnir á skuldavanda heimilanna.

Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum í gær um að koma á áætlun í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og stjórnarandstöðuna. Forsætisráðherra kallar eftir víðtæku samstarfi um atvinnuuppbyggingu.

„Við erum að tala um það að þessir aðilar setjist yfir það að marka hér stefnu í atvinnuuppbyggingu og vinnumarkaðsmálum og að það verði svipað fyrirkomulag sem við setjum þar upp og varðandi skuldavandann að viðkomandi þingnefndir sem fjalla um atvinnumál og atvinnuuppbyggingu komi líka að því máli," segir Jóhanna Sigurðardóttir.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að lausnir komi fram í atvinnumálum samhliða lausn á skuldavanda heimilanna.

Þetta er einnig í takti við kröfur Alþýðusambands Íslands, en forysta sambandsins kynnti áherslur sínar í komandi kjaraviðræðum fyrir leiðtogum stjórnarflokkanna í gær.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir mikilvægt að allir aðilar snúi bökum saman við lausn mála. Áherslan eigi að vera að styrkja kaupmátt með því að skapa störf og auka verðmætasköpun í landinu, öðrum kosti gæti komið til átaka á vinnumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×