Erlent

Langmest framleitt af hassi í Afganistan

Þrátt fyrir að árum saman hafi uppskerur verið eyðilagðar í Afganistan hefur framleiðsla fíkniefna ekkert dregist saman. nordicphotos/afp
Þrátt fyrir að árum saman hafi uppskerur verið eyðilagðar í Afganistan hefur framleiðsla fíkniefna ekkert dregist saman. nordicphotos/afp

Í Afganistan er ekki einungis framleitt meira ópíum en í öðrum löndum, heldur eru Afganir nú einnig orðnir afkastamestir ríkja heims í framleiðslu á hassi.

Sameinuðu þjóðirnar telja að á ári hverju séu 10 til 24 þúsund hektarar af landi notaðir undir kannabisrækt. Úr þessu eru svo framleidd 1.500 til 3.500 tonn af hassi árlega.

„Þótt önnur lönd rækti enn meira af kannabis, þá er það þessi ótrúlega mikla framleiðni úr afgönsku kannabisuppskerunni sem gerir landið að stærsta hassframleiðanda heims,“ segir Antonio Maria Costa, yfirmaður fíkniefna- og sakamálaskrifstofu Sþ.

Í Afganistan tekst bændum að vinna 145 kíló af hassi úr kannabisuppskeru af einum hektara, en í Marokkó, svo dæmi sé tekið um annað afkastamikið hassframleiðsluland, er afkastagetan rétt um 40 kíló af hassi á hektara.

Nú er svo komið að veruleg hassframleiðsla er í 17 af 34 héruðum Afganistans. Mest er þetta í suðurhluta landsins, þar sem átök hafa verið hörð og ítök talibana sterkari en annars staðar í landinu.

Árum saman hefur verið reynt að uppræta ópíumrækt í landinu, en með takmörkuðum árangri. Víða hafa bændur brugðist við með því að rækta kannabis í staðinn fyrir ópíum.

Costa segir að afganskir bændur kjósi þó fremur að framleiða ópíum en hass, og rækti því kannabis frekar á sumrin þegar vatn er af skornum skammti.

Í Afganistan eru framleidd um 90 prósent af öllu því ópíumi sem selt er í heiminum. Þessi búgrein afganskra bænda hefur verið notuð til að fjármagna uppreisnarhernað talibana. Hún hefur einnig átt sinn þátt í að viðhalda útbreiddri spillingu meðal stjórnvalda.

„Öll fíkniefni í Afganistan, eru skattlögð af þeim sem ráða á staðnum, og útvega uppreisnarhópum þannig viðbótartekjulind,“ segir Costa. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×