Lífið

Massadjamm á blakmóti

Valgeir Bergmann, með stóru svörtu hárkolluna, segir hópinn með eindæmum leikglaðan.
Valgeir Bergmann, með stóru svörtu hárkolluna, segir hópinn með eindæmum leikglaðan. Mynd/úr einkasafni

Hópur manna sem kallar sig Massadjamm vakti gríðarlega athygli fyrir mikla leikgleði og fagnaðarlæti á 35. Öldungamóti Blaksambands Íslands sem fram fór í Mosfellsbæ fyrir rúmri viku þrátt fyrir að vinna aðeins einn leik á öllu mótinu.

„Við erum stór vinahópur sem kynntist í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á sínum tíma og hefur haldið hópinn síðan. Í vinahópnum eru nokkrir sem spiluðu blak á sínum yngri árum og þóttu mjög efnilegir en svo eldast menn og þeir fóru að tala um að stofna blakfélag til að keppa í öldungadeildinni undir heitinu Massablak. Við hinir fylgdum þeim á öldungamót sem haldið var á Ísafirði og þótti svo gaman að við hóuðum saman fleiri félaga og bjuggum til annað lið sem fékk heitið Massadjamm,“ segir Valgeir Bergmann, einn meðlimur hópsins.

Hann segir aðalatriðið hjá hópnum ekki að bera sigur úr býtum heldur að hafa gaman af. „Við töpuðum flestum leikjunum en aldrei leikgleðinni. Fagnaðarlætin eru oft svo mikil að stundum eru sigurliðin ekki viss um hvort þau hafi í raun unnið. Við komum fyrst og fremst til að skemmta okkur og ég held að við höfum verið það lið sem skemmti sér hvað lengst á kvöldin. Við mættum samt á alla leikina okkar næsta morgun, sumir þá ennþá nokkuð hressir. “

Um 125 lið tóku þátt í Öldungamótinu í ár og segir Valgeir að meðlimir Massadjamms hafa hvatt öll liðin til dáða meðan á mótinu stóð.

„Við munduðum gettóblasterinn og héldum með öllum þeim sem þurftu á stuðningi að halda. Flestir voru ánægðir með framtakið en það var þó ein kona sem bað okkur um að lækka í tónlistinni. En við reynum að styðja alla og þess vegna held ég að það sé ekki hægt að kalla okkur blakdólga í þeim skilningi,“ segir Valgeir. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.