Erlent

Bretar sjá framá stjórnarkreppu

Óli Tynes skrifar

Íhaldsmenn hafa enn nokkra forystu í kosningabaráttunni samkvæmt skoðanakönnunum. Verkamannaflokkurinn virðist þó hafa aðeins sótt í sig veðrið á kostnað Frjálslyndra demokrata.

Samkvæmt könnun sem gerð var þriðja og fjórða maí fá íhaldsmenn 35 prósent atkvæða sem er óbreytt frá fyrri könnunum.

Verkamannaflokkurinn bætir við sig tveim prósentum og er með 30 prósent. Og Frjálslyndir lækka um fjögur prósent og fá 24 prósent.

Þessar tölur benda til þess að enginn einn flokkur fái hreinan meirihluta á þingi. Það mun leiða til þess að miklar samningaviðræður hefjast um samsteypustjórn.

Jafnvel þótt íhaldsmenn fái flest sæti á þingi þýðir það ekki að þeir fái sjálfkrafa rétt til þess að leiða fyrstu stjórnarmyndunarviðræðurnar.

Þann rétt hefur Gordon Brown, sem forsætisráðherra. Það er í raun skylda hans að sitja áfram sem forsætisráðherra þartil ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, hvort sem flokkur hans á aðild að henni eða ekki.

Samkvæmt breskum lögum má landið ekki vera án ríkisstjórnar í svo mikið sem eina mínútu.

Gordon Brown getur þó tekið þá ákvörðun að reyna ekki að mynda ríkisstjórn ef íhaldsmenn vinna stóran sigur þótt hann dugi ekki þeim ekki í hreinan meirihluta.

Þá mun Brown segja af sér og drottningin að öllum líkindum fela David Cameron að reyna að mynda ríkisstjórn.

Brown mun þó undir öllum kringumstæðum sitja áfram sem forsætisráðherra þartil ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og er reiðubúin til þess að taka við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×