Skoðun

Athyglissýki á lokastigi

Friðrik Indriðason skrifar
Það var eitt sinn sagt á prenti um þekktan söngvara hérlendis að sá væri með athyglissýki á lokastigi. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands virðist einnig þjást af þessum sjúkdómi. Forsetinn er tilbúinn að segja hvað sem er til að komast í sviðsljós fjölmiðla, einkum erlendra. Þegar það tekst getur forsetinn kannski talið sjálfum sér trú um að hann skipti einhverju máli á alþjóðlegum vettvangi þann daginn.

Nú er forsetinn í líki fjármálaspekings á Reuters að ræða um galla evrunnar og að hún sé síður en svo trygging fyrir árangri í efnahagsmálum. Nefnir hann erfiðleikana á Írlandi sem dæmi. Því sjái hann ekki glöggt kostina fyrir Íslendinga að skipta um mynt og er þar að vísa í viðræðurnar um ESB aðild Íslands.

Forsetinn ætti kannski að minnast á að með krónuna sem lík í lestinni hrundi hátt í 90% af bankakerfi Íslands á svo til einni nóttu. Þetta er atburður sem ekki á sér hliðstæðu í nútímasögu Vesturlanda. Virtir erlendir viðskiptaháskólar hafa bætt „íslenska undrinu" í námskrár sínar. Ísland er orðið að alþjóðlegu viðmiði um efnahagshrun.

Bankakerfið er ekki enn hrunið á Írlandi tveimur árum eftir að slíkt gerðist á Íslandi. Erlendir kröfuhafar Írlands standa ekki uppi með 6.000 til 7.000 milljarða króna skell eins og þeir sem höfðu fjárfest í íslenskum bönkum og atvinnulífi.

Evran á undir högg að sækja vegna „íslenskrar" hegðunar banka- og viðskiptamanna á Írlandi og í suðurhluta Evrópu í aðdraganda hrunsins. Hún hefur hinsvegar staðið sig vel og heldur sínu gagnvart dollaranum, hefur raunar verið sterk í evru/dollar krossinum stóran hluta af árinu.

Að baki evrunnar eru digrir sjóðir enda er evrusvæðið í heild næst öflugasta efnahagsveldi heimsins. Hún veitir því ákveðið skjól. Rifja má upp að í fyrra reyndu spákaupmenn og vogunarsjóðir að ráðast á dönsku krónuna. Hún er örmynt í alþjóðlegu samhengi eins og íslenska krónan. Munur er hinsvegar sá að danska krónan er tengd evrunni enda Danmörk í ESB. Þegar árásin varð ljós kom einfaldlega yfirlýsing frá seðlabankastjóra Evrópska seðlabankans (ECB) um að bankinn myndi verja dönsku krónuna fram í rauðan dauðann. Árásin dó þá og þegar.

Það eru ýmsir aðrir hlutir en erfiðleikar Íra og landanna í suðurhluta Evrópu sem horfa þarf á þegar menn telja að evran sé ekki „trygging fyrir árangri í efnahagsmálum".

Höfundur er blaðamaður á Vísi.










Skoðun

Sjá meira


×