Innlent

Vilja ekki ríkisstyrki á strandsiglingar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kristján Möller samgönguráðherra
Kristján Möller samgönguráðherra

Starfshópur samönguráðherra um mat á hagkvæmni strandsiglinga skilaði niðurstöðum sínum fyrir helgi en á morgunverðarfundi á Grandhóteli í morgun voru þær kynntar fyrir hagsmunaðilum.

Helsta niðurstaða skýrsluhöfunda er að hagkvæmt sé að hefja strandsiglingar, en þar er bent á að stjórnvöld víða um heim vinni nú að því að færa flutninga af vegum á sjó, fljótabáta og járnbrautir. Ástæðan sé m.a sú að raunverulegur samfélagslegur kostnaður við landflutninga sé oft vanmetinn hvað varði slit á vegum, slysahættu, mengun og önnur umhverfisáhrif.

Meðal þeirra kosta sem samgönguráðuneytið er að skoða alvarlega er að hefja siglingu milli Reykjavíkur og Akureyrar með viðkomu á Ísafirði. Hugsanlega væri einnig komið við á Sauðárkróki og Patreksfirði og tæki þessi hringur eina vinnuviku miðað við að skipið hefði helgarbið á Akureyri sem væri heimahöfn þess. Talið er að strandsiglingar henti svokölluðum þolinmóðum vörum og er áætlað að akstur vöruflutningabíla ætti að minnka um 3,2 milljónir kílómetra á ári með þessu.

Á fundinum í morgun gagnrýndu forsvarsmenn skipafélaganna, Samskips og Eimskips, niðurstöður starfshópsins nokkuð en fram kom í máli þeirra að ekki sé rétt að fara í framkvæmd á strandsiglingum með ríkisstyrkjum. Þá telja þeir að skýrsluhöfundar ofreikni mögulegan sparnað sem fólginn sé í því að færa hluta flutninga frá landi yfir á sjó vegna slits á vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×