Innlent

Héldu að byggingafulltrúi væri barnapervert

Boði Logason skrifar
Leikskóli. Mynd tengist frétt ekki beint.
Leikskóli. Mynd tengist frétt ekki beint.
„Þetta var bara misskilningur," segir leikskólastjóri á leikskóla í Borgarbyggð um atvik sem kom upp í gær á leikskóla í sveitarfélaginu. Fullorðinn maður keyrði hægt framhjá leikskólanum og mundaði myndavél í átt að leikskólanum. Starfsmennirnir þekktu ekki til mannsins og hringdu því umsvifalaust á lögregluna og tilkynntu um grunsamlegar mannaferðir og hugsanlegan barnapervert. Leikskólastjórinn segir málið leiðinda misskilning. Skessuhorn fjallaði um málið fyrr í dag.

„Starfsmönnunum fannst þetta eitthvað „spúkí". Það er bara gott að fólk er vakandi og tekur eftir," segir leikskólastjórinn en segir að starfsfólki hafi ekki endilega bara grunað að um barnapervert að ræða. „Það var ekkert endilega þannig. Það er verið að brjótast inn og allt mögulegt í gangi, þess vegna er maður með augun opin."

Eins og fyrr segir var lögreglan kvödd á staðinn og yfirheyrði manninn með myndavélina. Það kom svo í ljós að maðurinn var byggingafulltrúi frá öðru sveitarfélagi var að taka myndir af girðingu sem liggur að leikskólanum. Honum láðist að láta vita af tilgangi sínum við leikskólann.  „Hann baðst afsökunar á að hafa látið okkur ekki vita." Misskilningurinn var leiðréttur á staðnum.

Hún segir að ef fólk sé að taka myndir af leikskólanum eigi það að láta vita af sér. „Þetta er bara orðinn þannig heimur að maður þarf að vera vel vakandi og við erum það bara," segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×