Lífið

Davíð kynnir sig í Cannes

Davíð Óskar Ólafsson fær að kynna sig og sín verkefni á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
Davíð Óskar Ólafsson fær að kynna sig og sín verkefni á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Davíð Óskar Ólafsson, einn af eigendum framleiðslufyrirtækisins Mystery Island, hefur verið valinn sem fulltrúi Íslands í Producers on the Move.

Hópurinn er valin af EFP og fá viðkomandi að kynna sjálfa sig og verkefni sín á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem hófst í gærkvöldi. Mikið verður um dýrðir við hvítar strendur frönsku ríveríunnar en opnunarmyndin er Hrói höttur eftir Ridley Scott með Russell Crowe í aðalhlutverki.

Davíð segir þetta vera frábært tækifæri fyrir sig, fyrirtækið er með nokkur verkefni á teikniborðinu sem komin séu mislangt á leið. „Við ætlum að reyna að kynna þau fyrir þessu fólk og vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu," segir Davíð en Árni Filippusson, meðeigandi hans að Mystery Island, ætlar einnig að fara út til Frakklands.

Dagskráin er nokkuð stíf hjá Davíð því fyrst er kvöldmatur með hópnum og svo nánast stanslaus fundarhöld með hinum og þessum aðilum sem tengjast kvikmyndabransanum.

„Við höfum ekki farið áður til Cannes, vorum hins vegar saman í Toronto að kynna Sveitabrúðkaup. En mér skilst að það sé allt annað andrúmsloft þarna enda ein stærsta, ef ekki stærsta, kvikmyndahátíð í heimi. Þess vegna er líka svo gott að hafa þennan Producers on the Move-hóp upp á að hlaupa því annars er svo hætt við að maður týnist hreinlega í mannhafinu," segir Davíð.

Hann óttast þó ekki að verða veðurtepptur þótt askan úr Eyjafjallajökli sé aftur farin að stríða flugfélögum. „Nei, við fljúgum til Danmerkur og gistum þar eina nótt. Ef allt verður stopp þá er það bara plan B: að taka á sig sextán tíma bíltúr frá Danmörku til Cannes." - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.