Handbolti

Siggi Bjarna: Vinnum Serbana sannfærandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis.
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis.

Þeir Sigurður Bjarnason og Aron Kristjánsson verða EM-sérfræðingar Vísis næstu tvær vikurnar. Þeir eru báðir fyrrum landsliðsmenn og núverandi þjálfarar sem eiga það sameiginlegt að hafa sterka skoðun á hlutunum.

Sigurður er afar bjartsýnn fyrir leikinn gegn Serbum í kvöld og óttast ekki Serbana eins og svo margir gera.

„Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu og er alveg ótrúlega bjartsýnn. Ég trúi því að við tökum þetta sannfærandi. Spái 36-29 fyrir okkur. Við höfum tak á Serbunum og hefur oftast gengið vel með þessar Júgóslavíuþjóðir.

Ég óttast í rauninni Serbana minnst af þeim liðum sem eru með okkur í riðli. Sumir segja að það sé verra að fá snemma og sé betra að fá þá síðar þegar þeir nenna þessu ekki. Á móti kemur að þeir gætu verið á skriði og því kolbrjálaðir. Það þarf því ekkert að vera betra," sagði Sigurður en hvað mun gera gæfumuninn fyrir Ísland í kvöld?

„Þeir munu lenda í vandræðum með vörnina okkar og markvörsluna. Við klárum þá síðan með hraðaupphlaupum. Við erum oftast ekki sterkir gegn 3-2-1 vörn eins og Serbar munu eflaust spila. Þess vegna verður lykillinn að loka vörninni og keyra hraðaupphlaupin," sagði Sigurður en hann er sannfæður um að vörnin og markvarslan verði góð í mótinu.

„Ég skil ekki þá sem hafa áhyggjur af þessum hlutum. Við erum búnir að vinna alla leiki nema Frakkana enda var það blekking svo þeir vanmeti okkur í úrslitaleiknum," sagði Sigurður léttur en hann væntir mikils af íslenska liðinu á EM.

„Ég spái því að við förum í úrslit. Auðvitað þurfa þá allir lykilmenn að haldast heilir út mótið en ef það gerist þá förum við í úrslit."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×