Handbolti

Þorbjörn Jensson: Eins og þeir væru að spila í fjórða flokki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Austurríkismenn fagna sigri á móti Íslendingum.
Austurríkismenn fagna sigri á móti Íslendingum. Mynd/Leena Manhart
Þorbjörn Jensson, fyrrverandi landsliðsþjálfari íslenska handboltalandsliðsins, var í viðtali við Hans Steinar Bjarnason í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann fór yfir jafnteflisleikinn á móti Austurríki.

„Strákarnir hafa ekki nógu mikið sjálfstraust núna og við vorum að gera alveg ótrúleg byrjendamistök í þessum leik. Okkur eru líka mjög mislagðar hendur í varnarleiknum og hann er bara í molum ef ég verð að segja alveg eins og er," segir Þorbjörn.

„Það fór margt úrskeiðis í leiknum á móti Austurríki en síðan er það alveg sér kapítuli fyrir sig hvernig leikurinn endar því þá voru menn eins og þeir væru að spila í fjórða flokki og nýbyrjaðir að henda bolta á milli sín," segir Þorbjörn.

Hann hrósar mikið Degi Sigurðssyni, landsliðsþjálfara Austurríkismanna.

„Þetta var mjög taktískur sigur hjá Degi. Hann spilaði alveg inn á íslensku vörnina og nýtti sér þessa veikleika sem eru í henni. Hann nýtti sér að miðjumennirnir eru látnir sækja svona langt fram því það er ákveðin leikaðferð gagnvart því og hún gekk alveg fullkomlega upp hjá Degi," segir Þorbjörn.

„Dagur þekkir þetta lið okkar alveg út og inn. Hann tekur Ólaf úr umferð frá byrjun og gerir Ólaf svolítið værukæran," sagði Þorbjörn sem fannst það einnig mjög snjallt hjá Degi að hætta síðan að taka Ólaf úr umferð í seinni hálfleik.

Þorbjörn var líka ekki sáttur með frammistöðu dómarana í leiknum.

„Ég hefði verið alveg foxillur út í dómarana. Það er svolítið skítalykt af því þegar dómarar frá Rúmeníu eru að dæma þar sem heimaliðið er að leika. Það er vitað mál að þessir kappar ganga oft meira fyrir peningum en heiðarleika," sagði Þorbjörn að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×