Erlent

Elian litli orðinn sextán ára

Óli Tynes skrifar
Elian ver kúbversku byltinguna sína.
Elian ver kúbversku byltinguna sína.

Fjölmiðlar á Kúbu hafa birt nýjar myndir af piltinum Elian Gonzales sem varð frægasti flóttamaður Bandaríkjanna árið 2000.

Elian var ásamt móður sinni í hópi Kúbverja sem reyndu að flýja til Bandaríkjanna. Móðirin og margir aðrir drukknuðu en Elian sem þá var fimm ára gamall fannst á reki í bílslöngu.

Foreldrarnir höfðu skilið og faðirinn orðið eftir á Kúbu. Elian átti ættingja í Miami sem vildu taka hann að sér, en faðirinn vildi fá hann aftur til Kúbu.

Dómstóll í Bandaríkjunum úrskurðaði að faðirinn fengi forræði. Kúbverskir flóttamenn á Miami tóku því illa.

Þeir tóku sér varðstöðu við hús ættingjanna en eftir nokkurt þóf gerði lögreglusveit innrás í húsið og hafði drenginn á brott með sér.

Á Kúbu var honum tekið sem þjóðhetju og sjálfur Fidel Castro tók á móti honum. Afmælisdagur hans 7. desember er haldinn hátíðlegur með skrúðgöngum.

Elian er nú orðinn sextán ára og kúbverskir fjölmiðlar hafa birt myndir af honum þar sem hann er í ólífugrænum einkennisbúningi heskóla.

Myndirnar voru teknar á ráðstefnu ungkommúnista. Í fjölmiðlum mátti sjá fyrirsagnir eins og; -Hinn ungi Elian Gonzales stendur vörð um byltingu sína á ungmennaráðstefnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×