Lífið

Sigurjón Sighvats: Hopper var skapandi fram á ögurstund

Sigurjón Sighvatsson kynntist bandaríska leikaranum Dennis Hopper nokkuð vel en Hopper lék í tveimur myndum Sigurjóns. Kvikmyndaframleiðandinn segir að Hopper hafi verið einstakur og frábær manneskja.
Sigurjón Sighvatsson kynntist bandaríska leikaranum Dennis Hopper nokkuð vel en Hopper lék í tveimur myndum Sigurjóns. Kvikmyndaframleiðandinn segir að Hopper hafi verið einstakur og frábær manneskja.

Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna náið með leikaranum Dennis Hopper sem lést á laugardagskvöldið eftir langvinn veikindi. Sigurjón segist hafa þegið margar góðar ráðleggingar frá goðsögninni.

„Við þekktumst vel, hann lék í tveimur myndum sem ég framleiddi og þar að auki gaf hann mér fullt af ráðleggingum þegar ég var að koma myndinni Basquiat á kopp," segir kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson. Hann sér mikið eftir bandaríska stórleikaranum Dennis Hopper sem andaðist á heimili sínu í Kaliforníu á laugardaginn.

Sigurjón segist hafa haldið góðu sambandi við Hopper í gegnum tíðina og hann segist hafa farið að ráðum leikarans þegar Julian Schnabel var fenginn til að leikstýra kvikmyndinni Basquiat. „Flestir ráðlögðu mér gegn því að láta Julian leikstýra en Dennis hvatti mig eindregið til að fela honum þetta verkefni og bauðst til að leika í myndinni fyrir fimm þúsund dollara ef það gæti hjálpað."

Sigurjón ætlaði að ráða Hopper í nýju stórmyndina sína, The Killer Elite.
Sigurjón segir að hápunkturinn á samskiptum þeirra Hoppers hafi verið fyrir tveimur árum. „Dennis opnaði stóra listasýningu á verkum sínum í I Ace-galleríinu í Hollywood. Ég rakst á hann að degi til og hann sagði að ég þyrfti endilega að koma að skoða. Hann bauð mér að koma strax næsta dag og helst um morguninn. Úr varð þriggja tíma einkaleiðsögn um sýninguna og sögurnar á bak við hvert verk," segir Sigurjón og bætir því við að Hopper hafi verið frábær og fjölhæfur listamaður en um leið ótrúlega lítillátur og rausnarlegur.

„Hann sagði alltaf við mig: „Eftir að ég hætti að drekka og nota lyf þá þakka ég hverjum degi sem líður fyrir að fá að vera til og fá að njóta þeirra forréttinda að fá enn þá vinnu í þessum iðnaði, og gera það sem ég hef gaman af og það sem ég kann," segir Sigurjón og bætir því við að Hopper hafi verið skapandi fram á ögurstund.

Sigurjón upplýsir jafnframt að í fyrra, áður en Hopper veiktist, hafi komið til tals að hann myndi leika stórt hlutverk í kvikmyndinni The Killer Elite en Robert De Niro var fenginn í það. „Dennis Hopper var einstök persóna og frábær manneskja."

freyrgigja@frettabladid.is




Tengdar fréttir

Dennis Hopper er látinn

Leikarinn Dennis Hopper er látinn. Hann var 74 ára en hann lést á heimili sínu í Kaliforníu í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.