Skoðun

Detox og átröskun

Ólafur Gunnar Sæmundsson skrifar

Enn eina ferðina er „eldhuginn“ Jónína Benediktsdóttir í kastljósi fjölmiðla og nú vegna detox meðferðar sinnar sem hún rekur á Keflavíkurflugvelli. Ég hef áður gagnrýnt detox meðferðina sem byggir ekki á neinni vísindalegri þekkingu heldur á gervivísindum og kukli. Ég mun ekki fjalla um ristilskolunarbullið eða þá bitru staðreynd að fólk hafi lent á bráðadeild vegna þess að það hafi hætt á lyfjum, svo sem blóðþrýstingslyfjum. Heldur vil ég eyða nokkrum orðum á það mataræði sem boðið er upp á í meðferðinni sem er í algjöru ósamræmi við eðlilega og heilbrigða neysluhætti.

Í „meðferðinni“ er boðið upp á um 500 hitaeiningar (algeng orkuþörf fólks er 2.000-3.000 hitaeiningar) í formi grænmetis og ávaxta. Sem næringarfræðingur og foreldri þykir mér bagalegt að verða vitni að því þegar fólk (ekki síst ungt kvenfólk) sem hefur til að mynda þjáðst af átröskun (svo sem lystarstoli) dásamar þá meðferð (svo sem á facebook) sem þar fer fram og fær vart haldið vatni yfir því hve sniðugt það er að borða bara grænmeti og ávexti í allt að hálfan mánuð! Og þegar þeim sömu er bent á að það sé engum manni hollt að borða svona lítið er svarað: „Já, en starfsfólk og þar á meðal læknar Detox Jónínu Ben segja að það sé svo hreinsandi og hollt og gott fyrir líkamann.“

Til að sporna gegn átröskun, hvort heldur átröskunin tengist ofneyslu eða vanneyslu, verður eðlileg umræða um mat og mataræði að eiga sér stað þar sem leitast er við að varast boð og bönn. Umfram allt þarf þó að varast svæsnar öfgar líkt og þær sem boðið er upp á í Detox Jónínu Ben eða eins og segir í greinargerð sem landlæknisembættið hefur gefið út varðandi Detox Jónínu Ben að þá er enginn vísindagrunnur „…fyrir því að fasta með 500 kaloríum á dag sé til bóta fyrir heilsufar, heldur þvert á móti. Þegar lítils matar er neytt er ekkert eðlilegra en að blóðsykur og blóðþrýstingur falli. Það eru svo augljós og algild sannindi að óþarfi er að rannsaka það sérstaklega.“




Skoðun

Sjá meira


×